Hver þarf meira en eitt hestafl?

Eins og hjól, en samt með mótor, framljósum og bakkljósum.
Eins og hjól, en samt með mótor, framljósum og bakkljósum.

Deila má um í hvað flokk á að setja farartækið Elf. Sumir myndu kalla apparatið reiðhjól, en 750 vatta rafmagnsmótorinn gerir farartækið líkara litlu mótorhjóli. Yfirbyggingin og seta ökumannsins minnir þó meira á örsmáu stórborgarbílana.

Hvað svo sem menn vilja kalla Elf þá er farartækið ansi merkilegt.

Rob Cotter heitir maðurinn á bak við Elf en hann stofnaði og rekur fyrirtækið Organic Transit í New Connecticut. Rob er enginn aukvisi þegar kemur að ökutækjasmíði því hann hefur áður starfað sem verkfræðingur hjá Porsche, Mercedes-Benz og BMW.

Með Elf er hann þó að taka stefnuna í allt aðra átt en tryllitæki á borð við SLS AMG eða Boxterinn. Í stað hámarkshraða er áherslan á notagildið fyrir daglegar samgöngur innanbæjar, ódýran rekstur og lítil umhverfisáhrif.

Eins og áður segir er Elf með 750 vatta rafmagnsmótor sem skilar einu hestafli en lithíum-rafhlaða sér mótornum fyrir orku. Plasthlíf ver ökumanninn fyrir veðri og vindum og gerir farartækið straumlínulagað.

„Bíllinn“ getur borið allt að 160 kg af farþegum og farangri en hámarkshraðinn er rétt yfir 30 km/klst. þegar bæði rafmagnsmótorinn og hjólahreyfingar ökumannsins vinna saman. Á þakinu er 60 vatta sólarrafhlaða sem getur fyllt orkugeymslur Elf á einum sólríkum degi. Ökutækið notar diskabremsur, díóðuljós bæði að framan og aftan og hliðarspegla og bandarísk lög leyfa að tækið sé notað bæði á stígum og í rólegri umferð.

Blaðamaður MarketWatch fékk að prufukeyra Elf á dögunum og segir hann frá hvernig snjallsímaappið sem tengja má við farartækið sýndi að eftir um 25 km ferðalag hafði hann ekki bara komist örugglega á áfangastað heldur brennt nærri 600 kaloríum og „sparað“ umhverfinu nærri 7 kg af koltvísýringi með því að notast við orku sólarinnar.

Framleiðandinn kom verkefninu á laggirnar í gegnum hópfjármögnunarvefinn Kickstarter og eiga 1.500 pantanir að vera fyrirliggjandi. Vestanhafs kostar grunngerðin 4.995 dali sem eru rétt röskar 600.000 kr.

Sérstök vöruflutningaútgáfa, Truckit, er einnig væntanleg. Sú gerð getur borið um 360 kg farm og er með afturhlutann sérhannaðan til að geyma vörur af öllum stærðum og gerðum.

ai@mbl.is

Vöruflutningaútgáfan getur borið nokkur hundruð kíló vandræðalítið.
Vöruflutningaútgáfan getur borið nokkur hundruð kíló vandræðalítið.
Rafstigni „bíllinn“ Elf á ferð.
Rafstigni „bíllinn“ Elf á ferð.
Reiðhjól með hjálparvél eða bíll?
Reiðhjól með hjálparvél eða bíll?
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina