Bílatölvan kemur upp um glannaakstur

Frá vettvangi bílslyss. Ökuritar eru í fjölda nýrra bíla, oft …
Frá vettvangi bílslyss. Ökuritar eru í fjölda nýrra bíla, oft án þess að eigandinn geri sér grein fyrir því. mbl.is/afp

Hér áður fyrr þurftu lögreglumenn oft að rannsaka vettvang bílslysa með því að mæla t.d. lengd bremsufara og þannig áætla hraða ökutækjanna.

Nú er svo komið að tölvurnar í bílunum geyma mikið magn upplýsinga um aksturshraða og ökulag og eru bæði yfirvöld og tryggingafélög farin að nýta þessi gögn til að finna út hjá hverjum sökin liggur í árekstrum.

New York Times greinir frá embættismanni í Massachusetts sem komst að því með erfiðu leiðinni að bíllinn getur ekki þagað yfir leyndarmálum ökumannsins. Hann klessukeyrði Ford Crown Victoria-bifreið sína af árgerð 2011 en slapp nokkuð vel sjálfur. Þegar lögreglumenn bar að garði sagðist ökumaðurinn hafa bæði ekið á rólegum hraða og notað bílbelti. Þegar bílatölvan var skoðuð kom hins vegar í ljós að bíllinn fór á um 160 km/klst. hraða og bílbeltið ekki spennt.

Fyrir vikið fékk ökumaðurinn háa sekt ofan á það að hafa eyðilagt bílinn sinn.

Nær allir bílar skrá upplýsingar

NYT segir um 96% allra nýrra bíla sem seldir eru í Bandaríkjunum vera með n.k. ökurita, „svartan kassa“ sem virkar ekki ósvipað og flugritinn í flugvélum. Kassinn er vandlega varinn gegn hnjaski og upplýsingarnar sem hann safnar hafa m.a. nýst bílaframleiðendum til að meta og mæla akstursframmistöðu ökutækja sinna. Í auknum mæli eru þó gögnin líka að nýtast við rannsókn bílslysa og glæpamála og hefur það vakið spurningar um friðhelgi einkalífsins.

Er deilt um bæði hver á upplýsingarnar á ökuritanum, hvernig má nota upplýsingarnar þannig að teljist lögmætt og svo hversu áreiðanleg gögnin eru.

Í fjórtán ríkjum Bandaríkjanna hafa verið sett lög sem heimila löggæsluaðilum og sækjendum í skaðabótamálum að nálgast upplýsingarnar á ökuritum bíla að fengnum dómsúrskurði og gildir þá einu þó að upplýsingarnar á ritanum séu strangt til tekið eign eiganda bílsins.

Ólíkt flugritunum í flugvélum, sem safnar öllum upplýsingum og samskiptum út í gegnum hverja flugferð, geyma ökuritarnir í bílum þó aðeins upplýsingar sem safnað var nokkrum sekúndum áður en bíllinn klessir eða loftpúði blæs út. Talsmenn einstaklingsfrelsis hafa meðal annars áhyggjur af að gagnasöfnunartíminn muni verða æ lengri og að byrjað verði að safna öðrum gögnum á borð við GPS-hnit.

ai@mbl.is

Frá vettvangi bílslyss. Ökuritar eru í fjölda nýrra bíla, oft …
Frá vettvangi bílslyss. Ökuritar eru í fjölda nýrra bíla, oft án þess að eigandinn geri sér grein fyrir því. mbl.is/afp
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina