Ítalski bílaframleiðandinn Fiat hefur útbúið þrjár mismunandi útgáfur af Fiat 500 sem eru byggðar ofan á kraftmiklum bátum fyrir brimbrettakeppnina, Vans US Open of Surfing, sem fer fram á Huntington ströndinni í Kaliforníu þessa dagana.
Útgáfurnar þrjár eru Fiat 500 sem er appelsínugulur að lit, Fiat 500 Cabrio (blæjubíll) sem verður perluhvítur og Fiat 500 Abarth (sporttýpan) sem ber rauðan lit. Þeir munu renna sér eftir yfirborði Kyrrahafsins og skemmta þúsundum brimbrettaaðdáenda á opnunardegi keppninnar auk þess að auglýsa Fiat sem hóf á ný framleiðslu á bílum í Norður-Ameríku árið 2010. En Fiat lætur ekki þar við sitja því þeir hafa einnig hannað bátaútgáfu af glænýjum fjögurra dyra Fiat 500L.