Nú geta þeir sem eru aðdáendur Mercedes Benz og spila golf glaðst því að Benz hefur kynnt nýjan golfbíl sem kallaður er Vision. Bíllinn er afrakstur samkeppni um golfbíl framtíðarinnar sem aðdáendur bílaframleiðandans tóku þátt í.
Golfbíllinn var síðan hannaður bæði eftir hugmyndum þeirra og uppbyggingu Mercedes Benz-bíla. Vision hefur því einhver útlitseinkenni Benz en eiginleika golfbíls.
Vision-golfbíllinn er knúinn af rafmagnsmótor og liþín-jóna-rafhlöðu sem fær orku sína frá sólinni í gegnum sólarsellu á þaki bílsins.
Golfbílnum er stjórnað með stýripinna sem er á miðjustokknum í staðinn fyrir hefðbundið stýri og pedala þannig að ökumaðurinn eða farþeginn geta keyrt bílinn.
Einfaldleikinn er lykillinn í hönnun bílsins og „innsæi og hrein form lýsa bílnum kannski best“, sagði Margarete Wies sem stýrir hönnunardeild Benz í Kaliforníu. Vision er búinn nýjustu tækni eins og snertiskjá en hægt er að nota skjáinn til að stjórna nánast öllu.
Vision-golfbílnum er ekki einungis hægt að aka um golfvelli því það er hægt að keyra hann á venjulegum vegum. Bíllinn er hannaður með öllum nauðsynlegum búnaði eins og stefnuljósum og fram- og afturljósum. Þökk sé LED-framljósum þá er hægt að spila golf þó að tekið sé að rökkva því að þau eru með flóðlýsingu. jonas@giraffi.net