„Bílaleigurnar sem fólk hefur stofnað á síðustu árum til þess að fleyta rjómann þegar mest er um að vera í ferðaþjónustunni ættu að standa betur að málum. Þær eru gjarnan með bíla sem eru hreint ekki boðlegir,“ segir Páll Heiðar Hauksson sem rekur bílaverkstæðið Smur og dekk á Patreksfirði.
Það nær varla nokkurri átt að verið sé að leigja út bíla sem eru kannski 10 til 15 ára og eknir 250 þúsund kílómetra. Slíkir bílar eru orðnir slitnir og bilanagjarnir – og oft gefur sig eitthvað þegar komið er út á holótta malarvegi hér fyrir vestan, segir Páll Heiðar sem rekið hefur verkstæði sitt í tólf ár.
„Satt að segja eru þessi bílaleigumál verstu tilvikin sem ég fæ. Hjá þessum bílaleigum eru hlutirnir oft lausir í reipunum og túlkaðir frjálslega. Þar segja menn stundum að bilanir og óhöpp séu á ábyrgð ökumannsins og þeim beri að greiða reikninginn frá verkstæðinu. Sá sem leigir bílinn er á öndverðum meiði og þarna lendi ég stundum milli tveggja elda. Það er ekki mikið hægt að gera í þessari stöðu – og það er dapurlegt að vita til þess að svona ströggl verði til þess að eyðileggja Íslandsferð útlendinganna sem hafði verið mikið tilhlökkunarefni.“
Í litlum bæ úti á landi er bílaverkstæðið nánast altæk stofnun. Sérhæfing er ekki til og starfsmennirnir þurfa að leysa úr sérhverri þraut.
„Á vorin kemur fólk með bilaðar sláttuvélar og á haustin mæta gamlar konur sem biðja mig um að slá dekkjanöglum undir skósólana svo þeim sé fært yfir hálkublettina. Svo eru þetta bara almennar viðgerðir og eins dekkjaþjónusta bæði fyrir almenna bílaeigendur og eins trukkana frá fiskvinnslufyrirtækjum, Vegagerðinni og fleirum,“ segir Páll Heiðar. Vegna þessa er hann með helstu varahluti á lager. Annað er sérpantað að sunnan
„Já, þetta er ekkert mál. Ef hingað er komið með bilaðan bíl að morgni og varahlutirnir ekki til hringir maður kannski í umboðin eða Bílanaust og þar er flest til. Þar skjótast menn út á flugvöll, vélin frá Erni flýgur á Bíldudal klukkan eitt og um hálf þrjú er sendingin komin hingað. Ef ferðamenn eiga í hlut geta þeir átt góðan aukadag hér á Patreksfirði og þurfa ekki að láta sér leiðast.“
Bágt ástand vega í Barðastrandarsýslum hefur lengi verið í brennidepli. Segja má að málið hafi fyrst komist á dagskrá í opinberri heimsókn forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, um svæðið haustið 1996, fáum vikum eftir að hann tók við embætti. Þar gerði hann vonda vegi að umfjöllunarefni og þótti mörgum sem hann hefði lög að mæla.
„Ástandið hefur aðeins batnað, en það þarf svo sannarlega að gera betur. Vegurinn niður á Rauðasand og út á Látrabjarg er algjör ruddi. Í sumar hefur ekki komið sú vika að ég þurfi ekki að renna út eftir til hjálpar ökumönnum og verst er þetta þegar ekið hefur verið ofan í holur svo kannski springur á bæði fram- og afturdekki í einu. Því fylgir oft að hjólabúnaður laskast. Það á ekki síst við um þessa gömlu bílaleigubíla, sem eru hreint ekki boðlegir,“ segir Páll Heiðar Hauksson á Patreksfirði að síðustu.
sbs@mbl.is