Afmæli skapara Mini fagnað

Mynd þessi er sú eina sem Mini hefur sent frá …
Mynd þessi er sú eina sem Mini hefur sent frá sér í tilefni nýja módelsins sem frumsýnt verður 18. nóvember í Oxford. mbl.is/Mini/BMW

Hátíð verður haldin í Oxford í Englandi 18. nóvember næstkomandi, á fæðingardegi Miniskaparans Sir Alec Issigonis, sem kom í heiminn þann dag árið 1906. Tilefnið er að þá verður frumsýndur nýr Mini.

„Nýtt skeið akstursánægju, tónlistar og skemmtikerfi og gæðasmíði í smábílageiranum nálgast óðfluga,“ segir í tilkynningu Mini um afmælishátíðina. Hún verður haldin í Mini-smiðjunni í háskólabænum Oxford. Tveimur dögum seinna verður bíllinn frumsýndur á bílasýningunum í Los Angeles í Kaliforníu og Tokýó í Japan. 

Eins of forverarnir verður nýji Minibíllinn smíðaður í Oxford og hefst fjöldaframleiðsla hans er nær dregur afmælisdeginum. Í bílsmiðjunni þar hafa verið framleiddir bílar í ríflega öld. 

Með tilkomu Mini árið 1959 olli Alec Issigonis byltingu í bílaframleiðslu. Hönnunarhugmyndir hans rötuðu fljótt inn í smábílasmíði annarra framleiðenda. Lítið hefur verið látið uppi um nýju kynslóðina sem sér dagsins ljós í nóvember, nema að í honum verða splunkunýjar vélar og undirvagninn verði algjörlega ný hönnun.

mbl.is

Bloggað um fréttina