Ítalska stórveldið Fiat sem á m.a. bílarisann Chrysler hefur gefið það út að ekki verði settir meiri fjármunir í þróun á rafmagnsbílum, um sinn að minnsta kosti. Í dag býður Fiat einungis upp á einn rafmagnsbíl og það bara á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum. Sá bíll er rafmagnsútgáfan af Fiat 500, en Fiat borgar töluverða fjárhæð með hverju eintaki.
Að sögn Fiat er aðal ástæðan fyrir því að meiri fjármunir verða ekki settir í þróun rafmagnsbíla sú að kaupendur séu ekki ennþá tilbúnir til að borga aukakostnaðinn fyrir tæknina. Í staðinn ætla Fiat og Chrysler að halda áfram að fjölga dieselvélum og vélum með túrbínur. Til merkis um það má nefna að Jeep Grand Cherokee og Ram 1500 fást brátt með dieselvélum í Bandaríkjunum.