Jagúar liggur nú yfir plönum sem leitt gætu til smíði á litlum afar sparneytnum framdrifnum bíl er uppfylla mun ströng skilyrði um losun úrgangsefna.
Tilgangurinn með smíðinni er að lækka meðaltals losun smíðisflota Jaguar Land Rover fyrirtækisins svo hann standist kröfur sem koma til framkvæmda árið 2020.
Jagúar er á leiðinni með nýjan lúxusbíl af minni gerðinni og jeppling þá gæti það hugsanlega ekki hrokkið til að uppfylla mengunarkröfur að smíða litla framdrifna bílinn. Ekki einu sinni þótt takmarkið sé að ná sparneytni þeirra það niður að þeir losi ekki nema 99 g/km af gróðurhúsalofti.
Sérfróðir telja hugsanlegt, að Jaguar Land Rover þurfi að feta sömu stigu og BMW sem er með mjög umfangsmikla áætlun í gangi er gengur út á að smíða ýmsa afar sparneytna framdrifsbíla undir eigin merkjum og Mini til að ná losunarmörkum smíðisflotans niður. Þessir smábílar gætu orðið allt að 40% af framleiðslu BMW undir lok áratugarins.
Þess vegna hugsa stjórnendur Jagúar stíft þessa dagana og eru sagðir vera draga upp áætlun um seríu af smábílum til sölu í miklu magni. Sá böggull fylgir skammrifi, að það hefði óhjákvæmilega í för með sér miklar fjárfestingar og arðsemiskröfur því fylgjandi - meðal annars um væna framlegð smábílanna - yrði afar erfitt, ef ekki vonlaust að uppfylla eins og markaðurinn er núna. En Jagúar er sagður eiga engra annarra kosta völ en fleygja sér til sunds til samkeppni við smábíla Mercedes-Benz og 1-seríu BMW.
Ástæðan er sú, að árið 2020 ber bílamódelum hvers framleiðanda að losa að hámarki 95 g/km af koltvíildi að meðaltali. Og á næsta ári er búist við að samþykkt verði áætlun um enn frekari losunartakmörk á þriðja áratug aldarinnar, allt niður undir 68-78 g/km.
Reiknað hefur verið út að akstur rafbíls sem hlaðin er til fulls við heimilistaug í Evrópu losi ígildis 75 g/km vegna rafmagnsnotkunarinnar.
Þessi smábíll gæti orðið að hámarki fjögurra metra langur en það hefur lengi verið draumur Ian Callum aðalhönnuðar Jagúar að slíkur bíll verði smíðaður. Hann segir áskorunina við að hanna og smíða slíkan bíl virka einstaklega vel á sig.