Sú var tíðin að draga mátti nokkuð haldgóðar ályktanir um stjórnmálaskoðanir Íslendinga af því hvernig bíla það átti.
Þeir sem bundu trúss sitt við Sjálfstæðisflokkinn voru öðrum líklegri að aka um á Benz frá Ræsi eða Heklubílum, sem hafa verið af ýmsum gerðum. Framsóknarmenn völdu hins vegar bíla frá Sambandinu, svo sem Chervrolet, Opel og fleiri slíka.
Fólk sem skipaði sér til vinstri í pólitískum viðhorfum, sem á stundum hafði ekki úr miklum peningum að spila, valdi sér gjarnan ódýraaustantjaldsbíla, til dæmis Trabant, Wartburg, Moskwitsch eða Lödu frá Bifreiðum og landbúnaðarvélum.
Mætti svo lengi áfram telja, en taka ber fram að pólitík og val á bílum héltust ekki alltaf í hendur. Fjarri því.
En þetta er veröld sem var og nú er það notagildi, sparneytni, útblástur, verð, eyðsla og aðrir slíkir þættir sem ráða ákvörðunum fólks við bílakaup. Rétt eins húsin setja svip sinn á landið gera bílarnir það líka. Fólk og farartæki eru tvíein heild.
Það er kannski helst Toyota Yaris sem gefur einhverja vísbendingu um fólk á ferðinni – enda njóta þeir mikilla vinsælda meðal erlendra viðskiptavina bílaleiganna. Stundum er talað um Yaris- eða Aurisfólkið. Það er víða á ferðinni og hefur stundum verið á það deild að ferðast ekki af hyggindum. Leggja út í allskonar ófærur og misbjóða bílunum sakir ókunnugleika. Af því hafa margir sem til þekkja haft nokkrar áhyggjur.
Morgunblaðið hefur verið víða á ferðinni að undanförnu – og bílarnir hafa oftar en ekki fangað auga myndasmiðs.
sbs@mbl.is