Bifreiðaverkstæði með ófullnægjandi búnað

Stefán Ásgrímsson hjá FÍB.
Stefán Ásgrímsson hjá FÍB. mbl.is

Algengt er að fólk kvarti undan vinnubrögðum á bifreiðaverkstæðum. Stefán Ásgrímsson hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda segir verkstæði of oft með ófullnægjandi tölvubúnað til bilanaleitar eða menn kunni ekki almennilega á hann. Fyrir vikið greiði fólk tugi þúsunda án þess að bilun finnist.

„Bílar eru orðnir svo flóknir og oft þarf að „tölvulesa“ þá. Þá brennur við að menn hafi ekki rétta búnaðinn og eru stundum ekki nógu vel að sér um það hvernig búnaðurinn virkar. Þeir kunna ekki að leita. Svo er þessi hugbúnaður sem les bilanir í bílunum misnákvæmur. Oft eru menn með bootleg [afrituð] forrit sem finna bilanirnar síður. Gjarnan vegna þess að hann er ekki uppfærður eftir að hann er afritaður.“

Stefán segir bilanaleit fokdýra og hún sé gjarnan dýrasti kostnaðarliðurinn. „Verkstæðistíminn kostar kannski um 15 þúsund krónur og fólk hrekkur í kút þegar það fær reikninginn án þess að bilun finnist,“ segir Stefán.

Sjálfstæð verkstæði ekki síður sérhæfð

Aðspurður hvort ekki megi kalla slík vinnubrögð fúsk vill Stefán ekki taka svo sterkt til orða. „Það er mjög hyggilegt að fara með bílinn til þeirra sem maður veit að kunna til verka og hafa réttu græjurnar. Það eru ekkert síður sjálfstæð verkstæði sem eru sérhæfð í ákveðnum bílategundum. Þá getur verið ódýrara að fara með bílinn á verkstæði sem eru með dýrari verkstæðistíma, því þau eru fljótari að finna það sem er að,“ segir Stefán.

Hann segir ekkert í lögum banna verkstæðum að notast við afritaðan tölvubúnað. „Í þessu samhengi ber að nefna að bílaframleiðendur hafa stundað það að láta einungis sín verkstæði fá upprunalega búnaðinn. Síðan rukka þau kannski önnur verkstæði um sex milljónir króna ef þau vilja kaupa hann.“ 

Hann segir fjölmörg mál koma inn á borð hjá FÍB þar sem fólk kvartar undan vinnubrögðum bifvélaverkstæða. Ef málin leysast ekki fyrir tilstilli sáttafunda á milli verkstæða og viðskiptavina bifvélaverkstæðanna þá eru samtökin með lögfræðing sem getur tekið mál að sér fyrir hönd félagsmanna. „Oftast nægir að tala við tæknimann frá okkur því hann hefur mikla þekkingu á þessum málum og veit hvert fólk á að snúa sér ef ágreiningur kemur upp,“ segir Stefán.

Fólk oft rukkað eftir á

Hann segir að öll betri verkstæði temji sér þau vinnubrögð að meta í upphafi hvert umfang bilananna sé og hve hár kostnaðurinn muni verða. Ef eitthvað meira finnist við nánari skoðun þá hafi þau samband við viðskiptavininn til að spyrja hvort einnig eigi að gera við þá aukalegu bilun. Á hinn bóginn séu mörg dæmi þess að slíkt sé ekki gert. Í slíkum tilvikum geta félagsmenn í FÍB einnig kallað eftir aðstoð og er þá verkstæðið krafið skýringa. „Oftast nær fólk að „lenda“ málunum og stundum fær fólk hluta verðsins niðurfellt.“

Stundum er fólk rukkað eftir á fyrir bilun sem finnst …
Stundum er fólk rukkað eftir á fyrir bilun sem finnst í bílum við nánari skoðun. mbl.is/Björn Jóhann Björnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina