Söluhæsti bíllinn í 118 ára sögu Skoda, Octavia, náði enn einum áfanganum nú undir lok ágústmánaðar er bifreiðarnar af þessari tegund sem runnið hafa af færiböndum bílsmiðjunnar í Mlada Boleslav í Mið-Bæheimi voru orðnar fjórar milljónir, en þar er vagga Skoda.
Tímamótabíllinn er dökkblár að lit, en enginn bíll hefur gagnast Skoda jafnvel eftir endurreisn fyrirtækisins eftir hrun kommúnismans. Núverandi kynslóð er sú þriðja í röðinni. Octavia var hleypt af stokkum árið 1996 og er fyrsti bíllinn sem hannaður er og smíðaður eftir að Skoda komst í eigu Volkswagen.
Eins og áður segir er Octavia söluhæsti bíllinn í sögu Skoda. Og frá því honum var hleypt af stokkum 1996 eru 38% allra bíla sem Skoda hefur síðan selt af þessari gerð.