Framtíðin í framljósunum

„Ljósmagnið og endingin er slík að þetta er raunhæf lausn …
„Ljósmagnið og endingin er slík að þetta er raunhæf lausn fyrir hverskonar bíla,“ segir Tinna María Magnúsdóttir, sölustjóri hjá Felgum.is. mbl.is/Ómar

„Þetta er framljósakerfi frá CREE og það er það nýjasta í Led-perum fyrir bíla. Þróunin er hröð á þeim vettvangi um þessar mundir,“ segir Tinna María Magnúsdóttir, sölustjóri hjá Felgur.is.

„Þessi tækni er alveg ný og býður upp á talsvert meira ljósmagn og um leið stöðugra ljós.“ Að sögn Tinnu Maríu er endingin á perunum framúrskarandi og spáir hún því að perurnar muni sækja í sig veðrið sem um munar á næstu mánuðum og misserum, að því marki að þær taki við bæði af bílaperum og húsaperum. „Perurnar eyða engu rafmagni, sem er ótvíræður kostur, og það kemur enginn hiti af þessum perum heldur.“

Góð ending, mikið ljósmagn

Eins og bíleigendur þekkja dregur jafnan niður í vélarganginum þegar kveikt er á aðalljósunum þegar um venjulegar perur er að ræða. Því er ekki að heilsa með CREE-perurnar þar sem þær koma ekkert að raforkunotkun bílsins. „Ending peranna er um 25.000 ljósstundir og ljósmagnið frá aðalljósaperunum er 1.800 lumen, sem er mjög mikið.“ Spurð um tegundir bíla sem perurnar passa í segir Tinna María að varan sé það ný að enn sem komið er séu perurnar aðeins fáanlegar í algengustu stærðunum, sem séu H7, H4 og H3. Úrvalið passi hinsvegar í flesta bíla, og fyrirliggjandi séu perur bæði í framljós og kastara. „Það er líka meira á leiðinni og það er gaman að geta þess sem dæmi að 2014 árgerðin af Mercedes-Benz S-Class verður ekki búinn einni einustu venjulegu peru, heldur verður eingöngu um LED-perur af þessari gerð að ræða. Það má því leiða líkum að því að framtíðin sé í þessari gerð pera. Ljósmagnið og endingin er slík að þetta er raunhæf lausn fyrir hverskonar bíla.“ Sem dæmi um notagildið nefnir Tinna María ennfremur að ökumenn sem komnir eru á efri ár komi stundum við hjá Felgum.is með fyrirspurnir um betri lýsingu. „Þeir eru þá gjarna á leið upp í sumarbústað, þar sem heimreiðin er ekki endilega upplýst alla leið og þá skiptir þessi birta frá ljósunum máli. Þeir sem sjá orðið ekki eins vel taka þessu fegins hendi, ekki síst þegar daginn tekur að stytta.“

Tinna bendir á að til að byrja með þurfi að kaupa sérstakt sett fyrir aðalljósaperurnar sem kostar tæpar 40.000 krónur. Í framhaldinu þurfi svo bara að kaupa perur sem kosti um 5.000 krónur. „Perukerfin er auðvelt að setja í bíla og það á að vera á nokkurn veginn á hvers manns færi, þó að vitaskuld megi alltaf leita ráðlegginga hjá okkur. Þá eru kerfin fáanleg bæði í 12V og 24V, svo þetta má setja bæði í fólksbíla og trukka.“

jonagnar@mbl.is

Led-perurnar og tilheyrandi búnaður.
Led-perurnar og tilheyrandi búnaður. mbl.is/Ómar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina