Bílaleigan Hertz skoðar þessa dagana að koma upp flýtibílakerfi, eins og þekkist víða í Evrópu og Bandaríkjunum, en með slíku kerfi er komið til móts við fólk sem ekki á einkabíl, en væri til í að geta gripið til slíks með stuttum fyrirvara við og við. Sigfús Sigfússon, framkvæmdastjóri Hertz, segir í samtali við mbl.is að Hertz erlendis bjóði nú þegar upp á slíka lausn, en leysa þurfi nokkur vandamál áður en hægt verði að yfirfæra hana á íslenskan markað.
Kerfið erlendis er byggt upp þannig að fólk skráir sig með kortanúmeri og fær sent örflögukort. Eftir það getur það fundið út á heimasíðu félagsins hvar næsti bíll er staddur, pantað hann og sótt hann á viðkomandi stað. Bíllinn er svo opnaður og ræstur með örflögukortinu. Það fer svo eftir því á hversu vinsælu svæði viðkomandi er hversu langt er í næsta bíl, en fyrirtækið býður venjulega upp á nokkur hundruð bíla í hverri stórborg. Áætlaður fjöldi í Reykjavík er þó nokkru minni í upphafi.
Sigfús segir að þetta sé fyrst og fremst hugsað fyrir þá sem ekki eigi bíl, en vilji eiga möguleika á að nýta möguleika einkabílsins í stuttan tíma í hvert skipti og með stuttum fyrirvara. Aðspurður hvort hann telji þetta vera næsta skref í átt að einkabílalausum lífsstíl, segist hann ekki vilja taka svo djúpt í árina, en að þetta hjálpi vitaskuld þeim sem nú þegar eru bíllausir og þeim sem vilja taka skrefið í þá átt. Sigfús segir þetta einnig vera áhugaverðan möguleika fyrir heimili sem vilji fækka bílum úr tveimur í einn.
Til að byrja með verður kerfið hér á landi þó frábrugðið því sem menn venjast erlendis, en Sigfús segir að í fyrstu verði ákveðnir útleigustaðir þar sem menn þurfi að skila bílunum aftur á. Með aukinni notkun verði svo væntanlega hægt að horfa til þess að þróa kerfið þannig að hægt verði að skilja bílana eftir á mismunandi stöðum og jafnvel án þess að vera í sérstökum stæðum leigunnar.
Tölvu- og pöntunarkerfið sem þarf fyrir þjónustuna er nú þegar til hjá Hertz erlendis, en Sigfús segir að enn séu nokkur vandamál sem þurfi að vinna sig framhjá. Þar eru gjaldeyrishöftin veigamest, en kerfi Hertz gerir ráð fyrir að greiðslurnar fari í gegnum greiðslukerfi fyrirtækisins erlendis. Þá á einnig eftir að ræða við bílastæðahús, Reykjavíkurborg og fleiri aðila varðandi bílastæði fyrir bílana. Sigfús er þó vongóður að hægt verði að leysa þessi vandamál á næstunni.
Sigfús segir að um 20 bíla þurfi til að byrja með þessa þjónustu, en Hertz á nú þegar bíla sem hægt er að setja í verkefnið. Eftir því sem meiri reynsla kemst á fyrirkomulagið og fleiri fara að nota það er að sögn Sigfúsar auðvelt að bæta við bílum og eru stækkunarmöguleikarnir miklir.
Flýtibílakerfi byggjast á því að notendur borgi aðeins fyrir þann tíma sem þeir nýta bílinn hverju sinni og er kerfið að mestu í sjálfafgreiðslu. Sigfús segir að það eigi eftir að koma í ljós hvernig Íslendingar bregðist við slíku kerfi, en erlendis hefur þetta fyrirkomulag færst í vöxt á síðustu árum. Í Þýskalandi reka meðal annars bílaframleiðandinn BMW og lestarfyrirtækið Deutsche Bahn slíka þjónustu, auk bílaleigufyrirtækja.