260½ rafbíll í hópakstri

260½ rafbíll tók þátt í hópakstrinum í Ósló.
260½ rafbíll tók þátt í hópakstrinum í Ósló.

Það fór svo - eins og væntingar stóðu til - að einstakt heimsmet var sett í Noregi á dögunum í hópakstri rafbíla. Í henni tóku þátt 260 og hálfur rafbíll.

Þetta þykir endurspegla vaxandi fjölda rafbíla á vegum Noregs en hópaksturinn átti sér stað í Ósló. Gamla metið var rækilega slegið en það var sett í Silverstone kappakstursbrautinni í Englandi með þátttöku 35½ bíls.

Þátttaka í hópakstrinum stóð öllum rafbílaeigendum í Noregi opin. Sumir óku allt að 500 km vegalengd til að taka þátt og nýttu sér hleðslustaura á leiðinni, en í Noregi er þróun stoðkerfis fyrir rafbílavæðingu einna lengst komin á heimsvísu.

Nissan Leaf var í sérflokki eða um helmingur fjöldans, 128 bílar. Er Leaf einn mest seldi rafbíllinn í Noregi en bara í fyrra seldust 2.298 eintök af honum þar í landi. Skerfur rafbíla í heildarsölu nýrra bíla í fyrra í Noregi nam 2,9%. Eigendur rafbíla eru undanþegnir bílaskatti, þurfa ekki að borga í bílastæði og mega aka í sérstökum akreinum fyrir strætisvagna.


 

Hálfur Nissan Leaf í hópakstri rafbílanna í Ósló.
Hálfur Nissan Leaf í hópakstri rafbílanna í Ósló.
mbl.is

Bloggað um fréttina