Meira „donk“, stærri felgur

Donk-bíll. Enginn skilur af hverju.
Donk-bíll. Enginn skilur af hverju. Youtube

Flest bílaáhugafólk veit hvað felgur geta gert mikið fyrir útlit og aksturseiginleika bíla. Í ljósi nýjasta felguæðisins er rétt að rifja upp helstu felgustærðir síðustu ára.

Stærri bremsur = stærri felgur

Í eina tíð þótti nokkuð gott að bíldekk væru á 13 tomma felgum og enn flottara ef þær voru 14 tommur að stærð, meðal annars til að geta sett stærri bremsur undir bílana. Jeppar og jepplingar fengust á 15 tomma felgum og það var látið gott heita.

Á þessum dekkjum voru svo hlutfallslega belgmikil dekk, sem gerði það að verkum að bílarnir urðu mýkri og þægilegri þegar ekið var yfir hvers kyns ójöfnur.

Meiri hraði = stærri felgur

Síðar fóru þó að sjást stærri felgur undir fólksbílum, með lítið annað en gúmmírönd fyrir hjólbarða. Þetta voru „low profile“ dekk, sem voru einkum ætluð til hraðbrautaaksturs. Unglingar og aðrir sportbílaeigendur á Fróni létu hraðbrautaleysi þó ekki aftra sér í því að setja slík dekk undir bíla sína.

Og það stoppaði engan að nær ómögulegt er að keyra yfir minnstu ójöfnur á slíkum dekkjum, hvað þá á malarvegi, án þess að hryggurinn á bílstjóranum falli saman. Þegar hér var komið sögu þóttu 17 og 18 tomma felgur nokkuð mannsæmandi, en 19 tomma felgur báru vott um sterka (en ekki endilega raunverulega) fjárhagsstöðu og mikla ást á viðkomandi bíl.

Á sama tíma stækkuðu jeppafelgur upp í 16 og 17 tommur, ekki síst vegna umfangsmeiri bremsudiska og -dæla.

Meiri „peningar, byssur og kvenfólk“ = stærri felgur

Þar hefði verið algjörlega viðunandi að nema staðar, ef ekki hefði verið fyrir hip-hop menninguna í Bandaríkjunum, og reyndar víðar. Aldrei áður hefur sést eins mikil samstaða meðal rappara um heim allan og þegar kom að því að velja felgustærð undir Cadillac Escalade-bíla. 22 tommur voru normið. Að sjálfsögðu fylgdu 23, 24 og meira að segja 26 tommur í kjölfarið.

Líklega geta flestir verið sammála um að þar með hafi ytri mörkum skynseminnar í felgustærð verið náð. Jafnvel rúmlega það.

En lengi er von á einum.

Meira donk = stærri felgur

Nú er nýjasta æðið vestanhafs að setja felgur sem eru 30 tommur, eða jafnvel stærri, undir sárasaklausa bíla. Til þess þarf að sjálfsögðu að hækka bílana og breyta þeim, þó að það sé ekki gert til þess að gera bílana fjallafæra, eins og við þekkjum hér á Íslandi (þar sem 16" felgur duga fyrir flest jeppadekk).

Það er raunar enginn augljós tilgangur með þessum risafelgum, annar en að vekja athygli og reyna að ganga í augun á öðrum. Þessi iðja á rætur að rekja til suðurríkja Bandaríkjanna, og nýtur mestra vinsælda meðal ungra blökkumanna og -kvenna. Það er því ekki skrítið að varla er gefið út rapp-myndband í dag án þess að „donk“-bílar séu þar í aðalhlutverki, en svo kallast bílar á fáránlega stórum felgum.

Þeir sem lengst hafa farið í vitleysunni hafa sett allt að fimmtíu tomma felgur undir sína bíla. Til samanburðar er hinn frægi kappakstursbíll Ford GT40 aðeins 40 tomma hár í heild sinni. Algengast er þó að „donkar“ séu á felgum sem eru nálægt 30 tommum að stærð.

„Donk“ er oftast gamall amerískur bíll sem hefur, auk hestvagnahjólanna, verið málaður með áberandi lit, svo glitrar á. Fyrir utan að hæðin á bílnum kemur óhjákvæmilega niður á akstursöryggi og aksturseiginleikum er það viðloðandi þessa bíla að fjármunir eigandans hafa klárast áður en hægt var að uppfæra fjöðrun og bremsur. Því eru margir „donkar“ varla í ökuhæfu ástandi.

Ef haft er í huga að áður fyrr stækkuðu felgur til að rúma stærri bremsur, sést enn betur hvað „donk“ er fullkomin rökleysa. Það breytir því ekki að það er hægt að hlæja að bílum sem hafa fengið þessa meðferð, eins og til dæmis þessum hér:

Hér er donk í undirbúningi. Jakkinn er tilfallandi.
Hér er donk í undirbúningi. Jakkinn er tilfallandi. Youtube
Eðal-donk.
Eðal-donk. Youtube
mbl.is

Bloggað um fréttina