Notar þú stundum upphafsstafi og styttingar, eða sleppir jafnvel millinafninu, þegar þú skrifar nafnið þitt? Þá ættirðu að finna til með Janice Keihanaikukauakahihulihe'ekahaunaele, en nafnið hennar er svo langt að það kemst ekki fyrir á ökuskírteininu hennar.
Janice er 54 ára og býr á Havaí. Hún tók upp eftirnafn mannsins síns þegar þau giftust 1992. Það telur alls 35 stafi og havaískt tákn sem líkist úrfellingarkommu, eða alls 36 tákn.
Tölvukerfið sem er notað fyrir skilríki í heimasýslu hennar ræður hins vegar bara við 35 tákn. Á ökuskírteininu, og öðrum skilríkjum, er því aðeins eftirnafn hennar, en þó þannig að á það vantar aftasta stafinn.
Eiginmaður hennar glímdi við sama vanda, en hann lést árið 2008.
Keihanaikukauakahihulihe'ekahaunaele fann sig knúna til að vekja athygli á málinu eftir að hún var stöðvuð af lögreglunni í síðasta mánuði. Lögregluþjónninn setti út á ökuskírteinið hennar, þar sem nafnið hennar var ekki allt á því.
„Bíddu við, sagði ég, það er ekki mér að kenna,“ segir Janice. „Það er yfirvöldum að kenna að ég er ekki með skilríki með réttu nafni.“
Lögregluþjónninn mun hafa stungið upp á því að hún notaðist við skírnarnafn sitt á skilríkjum en það tekur Keihanaikukauakahihulihe'ekahaunaele ekki í mál.
„Ég hef haft þetta nafn í yfir 20 ár. Ég hef aðlagast nafninu, það var djúpt, andlegt ferðalag.“
Nafnið fékk maðurinn hennar frá afa sínum, en það hafði birst honum í draumi. Hann notaðist eingöngu við þetta eina nafn, sem að sögn ekkju hans hefur margþætta merkingu.
„Ein er sú að þar sem óreiða og ringulreið ríkir, þá er það sá sem nafnið ber sem stendur upp, fær fólk til að einbeita sér að einhverju einu og leiðir það út úr óreiðunni.“
Til stendur að breyta tölvukerfinu sem vandræðin snúast um, og í lok árs mun það ráða við 40 stafa eigin- og eftirnöfn og 35 stafa millinöfn.