Ungur Ástrali, sem var ósáttur við 60 dollara (6.800 kr.) sekt fyrir stöðubrot, ákvað að svara fyrir sig með frekar óhefðbundnum hætti. Maðurinn, sem býr í Adelaide, mætti vissulega til að greiða sektina, en krafðist þess að fá að borga með 1.200 fimm senta myntpeningum.
Í meðfylgjandi myndbandi, sem maðurinn tók sjálfur, byrjar hann á því að fara í bankann og skipta 60 dölum í fimm senta peninga. Síðan fer hann til að greiða sektina og er greinilega nokkuð ánægður með þetta uppátæki sitt.
Þegar gjaldkerinn neitar hins vegar að taka við greiðslu í smámynt bregst hann hinn versti við og afsalar sér allri ábyrgð á sektargreiðslunni. Öryggisvörður á staðnum reynir að fá manninn til að taka við myntinni aftur, skipta henni í banka og koma aftur, en kallar loks á hjálp þegar sektargreiðandinn æsist við tiltalið.
Sá hleypur þá að út úr bæjarskrifstofunni og kallar: „Ég er búinn að borga, ég er farinn. Bless, ég lét þig fá peningana!“
Samkvæmt áströlskum lögum getur hver sem er neitað að taka við greiðslu í fimm senta mynt, fyrir hærri upphæð en fimm dollara.
Samkvæmt lögum er sektin því ógreidd, segir í frétt Jalopnik.
Þetta ætti að kenna lesendum að ef þeir vilja vera fyndnir þegar þeir eru fúlir, ættu þeir að ganga úr skugga um að brandarinn gangi upp.