Alpine vinnur fyrsta sigurinn

Alpine A450 á leið til sigurs í Búdapest.
Alpine A450 á leið til sigurs í Búdapest. mbl.is/Renault

Aðeins 190 dögum eftir að hann kom á götuna hefur sportkappakstursbíll Renault með því gamalkunna nafni Alpine unnið sinn fyrsta meiriháttar sigur í keppni. Vettvangurinn var Búdapest og mótið liður í Le Mans mótaröðinni í Evrópu.

Alpine A450 bíllinn hafnaði í þriðja sæti í tímatökunum en ekki voru liðnir nema fjórir hringir þegar Pierre Ragues hafði náð forystu, en hann skiptist á um að aka bílnum við Nelson Panciatici. Byggðu þeir smám saman upp drjúgt forskot og var ekki ógnað.

Keppni í Le Mans mótaröðinni tekur þrjár stundir og var mótið í Búdapest hið fjórða í röðinni á mótaskránni. Aðeins eitt mót er eftir, á heimavelli Renault Alpine í Paul Ricard-brautinni við Le Castellet í Frakklandi í septemberlok.

Ekki er lengra en frá í nóvember í fyrra að ákveðið var að endurvekja Alpine-nafnið með smíði kappakstursbílsins. Og samt hefur bíllinn þegar unnið mótssigur. Frumreynsla hans á kappakstursbrautinni var í sólarhringskappakstrinum í Le Mans í Frakklandi, en fyrir 35 árum vann forverinn Alpine A442b þar einn sinn stærsta sigur undir stjórn ökumannanna Didier Pironi og Jean-Pierre Jaussaud.

Í fyrsta móti Le Mans mótaraðarinnar, í Silverstone, misstu þeir Ragues og Panciatici naumlega af sæti á verðlaunapallil, urðu í fjórða sæti. Í tveimur næstu mótum varð bíllinn hins vegar í öðru sæti í mark, á Ítalíu og Austurríki. Er svo komið, fyrir lokamótið, að þeir Pierre Ragues og Nelson Panciatici eru með forystu í stigakeppni raðarinnar.


 

mbl.is

Bloggað um fréttina