Útlit er fyrir að lítið verði um bifreiðakaup hjá landsmönnum á næstu sex mánuðum samkvæmt stórkaupavísitölu Gallup sem birt var í vikunni.
Vísitalan stendur nú í 18,4 og lækkaði um 2,4 stig frá júní mælingu vísitölunnar. Telja 3,8% mjög líklegt að þeir muni kaupa bifreið á næstu sex mánuðum og 7,1% að það sé frekar líklegt, að því er fram kemur í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
Hagnaður af ökutryggingum 1,86 milljarðar í fyrra
Stærð bílaflota landsmanna getur haft töluverð áhrif á tryggingafélög landsins þar sem bifreiðatryggingar eru stærsta tryggingagrein félaganna. Árið 2012 komu 46,5% tekna tryggingafélaganna af tryggingarrekstri frá bifreiðatryggingastarfsemi, samkvæmt samanteknum tölum FME, og 36% hagnaðar.
Á síðasta ári var hagnaður af ökutækjatryggingum 1,86 milljarðar króna sem var töluverð hækkun frá árinu á undan, þrátt fyrir það er hlutfall ökutækjatrygginga í heildar afkomu tryggingafélaganna heldur að dragast saman.
„Það liggur fyrir að tryggingafélögin bítast nú um takmarkaðan markað en eina leiðin til að stækka hann er að eignum sem tryggja þarf fjölgi. Nýfjárfestingar einstaklinga og fyrirtækja eru þar einn helsti drifkraftur vaxtar og eins og ofangreindar tölur sína skiptir þar bílaflotinn töluverðu máli.
Þá skiptir einnig máli að bílaflotinn í dag er orðinn fremur gamall en meðalaldur fólksbifreiða í síðustu birtu tölum Umferðastofu, frá 2011, er 11,6 ár en árleg hækkun hans frá 2009 er 0,7 ár og benda þessar tölur síst til þess að flotinn yngist. Aldur bílaflotans þýðir að færri sjá hag sinn í því að kaupa frjálsar ökutækjatryggingar og dregur því úr tekjum sem af þeim hljótast,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.