Konur sem keyra skemma eggjastokkana

Kona í Saudi-Arabíu í farþegasæti bíls.
Kona í Saudi-Arabíu í farþegasæti bíls. AFP

Klerkur í Saudi-Arabíu segir að konur sem keyri bíla séu í hættu á að skemma eggjastokka sína og þar með minnki þær líkur á því að geta eignast börn. 

Konur í Saudi-Arabíu mega ekki keyra og geta ekki fengið ökuskírteini. Mikil umræða hefur skapast um málið að undanförnu og hefur verið hvatt til þess að konur setjist við stýrið 26. október til að mótmæla akstursbanninu.

Lögreglan í Saudi-Arabíu tekur brot á þessum reglum sínum föstum tökum og sektar konur og handtekur, sjáist þær aka bílum.

„Ef kona ekur bíl gæti það haft neikvæðar líffræðilegar afleiðingar samkvæmt læknisfræðilegum rannsóknum sem hafa verið gerðar,“ sagði klerkurinn Saleh al-Lohaidan í viðtali við fréttavefinn Sabq.org. „Rannsóknirnar sýna að þetta hefur sjálfkrafa áhrif á eggjastokkana og ýtir mjaðmagrindinni upp.“

Hann segir að þetta sé ástæðan fyrir því að konur sem keyri reglulega eignist börn með læknisfræðileg vandamál af ýmsum tegundum.

Sjá frétt um málið í heild á vef BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina