Fá frítt bensín í tvö ár

Lexus CT 200h.
Lexus CT 200h. mbl.is/Lexus

Markaðsstjórar bílaumboða reyna með öllum ráðum að fanga væntanlega bílkaupendur. Gildir þá að hafa sem flestar klær úti. Nýjasta „beitan“ í norskri bílasölu er að bjóða ókeypis bensín í tvö ár með nýjum bíl.

Það er Lexus-umboðið norska sem gripið hefur til þessa ráðs. Fyrirtækið hefur í áranna rás einbeitt sér að viðskiptavinunum enda kemur það ekki af sjálfu sér að Lexus hefur verið í efsta sæti tvö undanfarin ár í norskri neytendarannsókn, svonefndri Auto Index.

Inneignin er 300 ísl. kr.

Í Noregi hefur Lexus nær undantekningarlaust selt tvinnbíla, sem eru sparneytnir og losa lítið af koltvíildi og hinu heilsuskaðlega nituroxíði. Um þessar mundir herjar umboðið á markaðnum fyrir aukinni sölu á CT 200h-módelinu. Allir sem kaupa einn slíkan fyrir áramót fá bensínkort með 15.000 norskra króna inneign, jafnvirði rúmlega 300.000 íslenskra króna. Mun það duga meðal-Norðmanninum til um tveggja ára. Eflaust fylgir því þægileg tilfinning að tanka slíka bíla meðan kortið endist.

Svo virðist sem Norðmenn taki Lexus betur en Danir. Í Danmörku seldust aðeins 13 eintök af CT 200h-bílnum allt árið 2012 og þeir hafa tæpast hreyfst í ár svo að ákveðið var að hætta innflutningi á bílnum þangað.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina