Það stríðir gegn landslögum sem og almennri skynsemi að aka eins og vitfirringur. En það má vel hafa gaman af fantakeyrslu á sjónvarpsskjánum.
Hér koma nokkrar sígildar bílamyndir sem innihalda bíla með einum eða öðrum hætti. Flestar hressilegan hraðakstur, aðrar bara fallega og fágæta bíla.
Tímalaus Klassík um fjóra vini í Kaliforníu ( Ron Howard, Richard Dreyfuss, Charles Martin Smith og Harrison Ford) sem eyða einni nótt árið 1962 í flest það sem skiptir unga menn máli; að hanga og kjafta, rúnta og spyrna á tryllitækjum sem fá bíladellumenn til að tárast. Sólgulur Ford '32 ásamt '55 og '58 árgerðum af Chevy. Indæll og listavel heppnaður óður til einfaldari tíma og það þarf að hafa býsna kaldrifjaðan huga til að finna ekki fyrir fortíðarþrá yfir henni þessari.
Ein fyrsta mynd Steven Spielberg sver sig að sumu leyti í ætt við Jaws, meistaraverkið sem hann gerði fjórum árum síðar. En í stað gríðarstórs hvíthákarls er ófreskjan 18 hjóla trukkur með vitskertum bílstjóra sem ætlar að koma ökumanni fólksbíls fyrir kattarnef, sama hvað. Dauðasökin? Að hafa tekið fram úr. Þegar framljós flutningabíls verða að augum brjálæðings er lítið gaman að vera á vegum úti – en myndin er hörkuspennandi og skemmtileg.
Eina myndin á þessum lista sem státar af því að hafa hreppt Óskarsverðlaun sem besta mynd ársins er ekki bílamynd í þeim skilningi orðsins, heldur harðsoðin sakamálamynd með Gene Hackman í fantaformi sem fantalöggan Popeye Doyle. Hins vegar skartar myndin einum svakalegasta bílaeltingaleik sögunnar þegar Doyle eltist við eiturlyfjasmyglara; Doyle á '71 Pontiac LeMans, bófinn um borð í lest á upplyftri lestarbraut. Klassík.
Leggið til hliðar allar kröfur um leikræn tilþrif, vandaðan söguþráð eða faglega tæknilega afgreiðslu. Búist aftur á móti við bílaeltingarleik með '73 Mustang Mach 1 í aðalhlutverki sem varir í heilar 40 mínútur þar sem hátt í eitt hundrað bílar mæta skapara sínum. Myndin kostaði klink í framleiðslu á sínum tíma og H.B. Halicki er allt í öllu, en myndin er samt langtum betri en endurgerðaróskapnaðurinn frá 2000 með Nicolas Cage og Angelinu Jolie.
Þetta er mynd um bíltúr úti á landi. Landið er Frakkland, og bíltúrinn er á 320 kílómetra! Steve McQueen fer með aðalhlutverkið í þvottekta bílamynd sem hverfist um samnefndan þolakstur. Hér er komin kappakstursmyndin sem allar aðrar eru bornar saman við og ekki að ósekju.
Vitaskuld er ekki hægt að láta hjá líða að nefna þessa mynd, ef meiningin er að tala um bíla í kvikmyndum á annað borð. Hressileg löggusaga, Steve McQueen í algeru toppformi sem Frank Bullitt, og hin íðilfagra Jacqueline Bisset skemmir ekki fyrir. McQueen er hér aðalleikarinn og hreint ekkert slor sem slíkur, en stjarna myndarinnar er óumdeilanlega bíllinn hans, 325 helstafla Ford Mustang GT Fastback 390 V8, í litnum Highland Green, ekki síst í eltingarleiknum sem er einn sá frægasti sem filmaður hefur verið.
Ryan O'Neal leikur ökuþór sem vinnur fyrir sér með því að aka krimmum af vettvangi og hleður þannig upp skuldum gagnvart samfélaginu og löggunni sem er ákveðin í að negla hann. Walter Hill var býsna flinkur hasarleikstjóri á sínum tíma og þó að hér sé ekki heilum bílaflota gereytt eins og tíðkaðist í bílamyndum 8. áratugarins er myndin hin ágætasta. Ökuþórinn gengur einfaldlega undir nafninu The Driver og löggan er The Detective. Og það gengur upp.
Þeir sem þekkja til gamanmynda franska snillingsins Jacques Tati eiga gott og hér er komin sú síðasta sem hann leikstýrði um hrakfallabálkinn hressa, Hr. Hulot. Hér er hann bílahönnuður sem þarf að koma nýjasta bílnum sínum frá París og bílasýningu í Amsterdam. Þið megið giska á hversu vel sú ökuferð á eftir að ganga.
Hér segir frá Kowalski nokkrum sem hefur 15 klukkutíma til að komast frá Denver og vestur til San Francisco. Hvers vegna liggur ekki fyrir enda skiptir það engu máli. Það sem skiptir máli er að til verknaðarins hefur hann öflugan '70 Dodge Challenger sem unun er að sjá og heyra, enda einn af grundvallarbílum „muscle car“ tímabilsins.
Hér rekur leikstjórinn Francis Ford Coppola sanna sögu Preston Tucker, sem kynnti til sögunnar byltingarkenndan bíl á árunum eftir seinna stríð. Það leist Hinum 3 stóru (GM, Ford og Chrysler) illa á og gerðu þeir allt til að koma honum á kné. Hér er enginn bílaeltingaleikur en þess í stað sögð mikilvæg saga um ástríðuna fyrir bílum í allt af sjaldséðri gæðamynd.
jonagnar@mbl.is