Fregnir herma að bílaframleiðandinn Chrysler sé að vinna í nýjum Grand Wagoneer, en framleiðslu hans var hætt árið 1991. Samkvæmt frétt á Carbuzz.com á nýi bíllinn að verða stærri en Grand Cherokee, og koma á markað 2016.
Nýr Grand Wagoneer verður með þrjár sætaraðir og tekur því sjö eða átta farþega. Þar sem reynsla Chrysler af Jeep Commander (sem einnig var þriggja sætaraða) var ekki góð þykir ólíklegt að fyrirtækið reyni að bjóða tvo bíla í þeim flokki á sama tíma.
Og þá vakna spurningar um Dodge Durango, sem hefur átt í vök að verjast síðustu misseri, og þrálátur orðrómur er uppi um að dagar hans séu senn taldir.
Því má vera að nýleg auglýsingaherferð Dodge, sem skartaði Will Ferrell í sjötíu mismunandi auglýsingum, verði svanasöngur Durango. Nema auðvitað að auglýsingarnar virki svo vel að salan taki verulegan kipp.