Leigubílastríð skollið á í París

Þrátt fyrir að vera ein vinsælasta ferðamannaborg veraldar, með um 14 milljónir ferðamanna á ári, eru aðeins 17.500 skráðir leigubílar í París. Skortur á leigubílum er því stöðugt vandamál í frönsku höfuðborginni og hefur orðið til þess að fyrirtæki sem bjóða upp á akstur hafa sprottið upp á undanförnum árum.

Í fyrra voru þrjú hundruð fyrirtæki nýskráð sem bjóða upp á einkabílstjóraþjónustu. Munurinn á slíkri þjónustu og þjónustu leigubíla felst meðal annars í því að bílstjórinn er jakkafataklæddur, þráðlaust net er í bílunum og boðið upp á drykki. En fyrir það þarf að borga og eru ferðir með einkabílstjóra 20% dýrari en ferðir með leigubíl.

Þrátt fyrir að ferðirnar séu dýrari þykir leigubílstjórum Parísar vegið að sér og að einkabílstjórarnir séu að færa sig upp á skaftið. Þeir séu að taka frá þeim farþega við flugvelli og lestarstöðvar og það sé ósanngjörn samkeppni þar sem bílstjórarnir þurfa ekki leigubílaleyfi. Er gengið svo langt að tala um leigubílastríð í borginni.

Málið er nú komið á það stig að borgaryfirvöld telja sig þurfa að grípa inn í. Boðaðar eru hertar reglur vegna einkabílstjóraþjónustunnar. Slík fyrirtæki mega ekki bjóða þjónustu sína gangandi vegfarendum heldur verður að panta þjónustuna. Þá mega bílar slíkra fyrirtækja ekki skarta ljósaskiltum og ekki má vera gjaldmælir í bílunum.

Reglurnar verða því til að friða leigubílstjóra borgarinnar en leigubílaskorturinn í París hverfur ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina