Nýr Lundúnataxi á lokastigi þróunar

Nýi NV200 Lundúnataxinn er á lokastigi þróunar.
Nýi NV200 Lundúnataxinn er á lokastigi þróunar.

Hinir annáluðu svörtu leigubílar munu smátt og smátt hverfa af götum London á næstu misserum því arftaki þeirra er á lokaspretti þróunar, Nissan NV200-Lundúnataxinn. Að sjálfsögðu verður hann svartur eins og forverinn.

Nissan segir að hinn endurskapaði leigubíll verði „áreiðanlegasti, hagkvæmasti og  neytendavænsti Hackneybíll“ til að aka um götur bresku stórborgarinnar.

Unnið hefur verið stíft við að þróa bíl þennan undanfarið ár og fer lokasprettur þeirrar vinnu fram í sjálfri London. Bíllinn verður sýndur í allri sinni dýrð og lokagerð síðar á árinu. Af þeim sökum var hann að hálfu leyti undir yfirbreiðslum er honum var ekið við höll Elísabetar drottningar í gær.

Nissan vann samkeppni um smíði bílsins en samskonar bíla hefur japanski bílsmiðurinn nú þegar framleitt fyrir Tókýóborg og New York þar sem nýi bíllinn hefur verið nefndur „leigubíll morgundagsins“.

Uppfyllir NV200 meðal annars þær kröfur Lundúnaborgar að geta ekið í hring á bletti sem ekki er stærri en 25 fet, eða átta metrar, í þvermál. Þá er í þróun útgáfa af bílnum sem einvörðungu mun ganga fyrir rafmagni.

Til að auka aðgengi farþega verður dyrum bílsins rennt aftur og til að farþegar geti notið betur þess sem fyrir augu ber í borginni verður glerþak á NV200. Þeir munu og geta hlaðið snjallsíma sína í sérstökum innstungum í bílnum.

Upp úr áramótum hefst fjöldaframleiðsla á Lundúntaxanum nýja og má búast við að þeir hefji þjónustu á öðrum ársfjórðungi næsta árs.

mbl.is

Bloggað um fréttina