Hvers konar bíla kaupir ríka fólkið eiginlega? Netbílaverslunin Edmunds.com hefur kafað í skjöl og pappíra sem bílasölu fylgir og komist að því hvort akstursmáti hinna ríku skeri sig eitthvað úr.
Til að koma sér milli staða notast ríkustu neytendur Bandaríkjanna fyrst og fremst við bíla á borð við Jeep, Mercedes-Benzes og Tesla miklu fremur en Rolls-Royce eða Lamborghini.
Til að finna þetta út skoðaði Edmunds.com bílkaupamynstur fólks sem býr í dýrustu póstnúmerum borgum og bæjum. Skoðaðar voru allar nýskráningar bíla á tímabilinu frá síðustu áramótum til ágústloka.
„Ríkustu neytendurnir kaupa ekki framandi bíla, þeir kaupa ekki Ferrari og ekki dýrustu fáanlegu bílana. Þeir kaupa fremur bíla sem henta þörfum þeirra frekar en að berast á og auglýsa ríkidæmi sitt,“ segir sérfræðingur Edmunds.com sem vann greinargerð um rannsóknina.
Hann bætir við að svo virðist sem fólk kaupi bíl sem falli við hverfið sem þeir búi í. Til að mynda kaupi þeir sem heima eigi í fínustu hverfum kísildalsins svonefnda í Kaliforníu einna helst Tesla Model S rafbílinn. Aftur á móti kjósa íbúar í fínu hverfunum á Manhattan helst Jeep og Mercedesjeppa, bíla sem komi sér vel á holóttum götum bandarísku stórborgarinnar. „Ríkum virðast líka svalir bílar en um leið hentugir fyrir svæðin sem þeir búa á,“ segir sérfræðingurinn.
Í fimmta dýrasta póstnúmerinu, Sagaponack, í New Yorkríki (11962) er Jeep Wrangler uppáhaldsbíllinn í ár. Í fjórða dýrasta númerinu, Belvedere í Kaliforníu (94920) var Mercedes-Benz E-Class aftur á móti í efsta sæti.
Þriðja dýrasta póstnúmerið er efri austurhlið Manhattan (94920) og þar vildi ekki betur til en svo að jafnræði er með Jeep Grand Cherokee og Mercedes GL-Class.
Tvö dýrustu póstnúmerin eru í Kaliforníu, Los Altos Hills (94022) og Atherton (94027), og þar er Tesla Model S í sérflokki í ár.