Stúdentar hanna kappakstursbíl

Ragnheiður Björk og vígalegur ökuþór
Ragnheiður Björk og vígalegur ökuþór Morgunblaðið/Rósa Braga

33 nemendur úr Háskóla Íslands vinna nú hörðum höndum að hönnun og framleiðslu rafknúins kappakstursbíls sem mun taka þátt í Formula Student 2014.

33 nemendur af Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands koma að hönnun, þróun og smíði eins manns rafknúins kappakstursbíls undir liðsnafninu Team Spark. Liðið hyggst taka þátt í alþjóðlegu hönnunar- og kappaksturskeppninni Formula Student sem fram fer á Silverstone kappakstursbrautinni í Englandi og er sótt af liðum úr yfir 130 tækniháskólum.

Liðstjóri Team Spark, Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, segir keppnina undirbúa liðsmenn í að nýta sér fræðilegt námsefni og þekkingu úr háskólanum í hagnýt verkefni. Hún segir liðið ávallt skipað fjölbreyttum hópi einstaklinga en auk nemenda úr verkfræðigreinum hafa nemendur úr Listaháskólanum og viðskiptafræði tekið þátt í verkefninu. „Þessi fjölbreytni er mjög mikilvæg, en þverfaglegt verkefni sem þetta gefur þátttakendum betri innsýn í fyrirkomulag þeirra verkefna sem þeir munu koma til með að takast á við á atvinnumarkaðnum,“ segir Ragnheiður og bætir við að slíkt samstarf sé jafnframt líklegra til að skila árangri enda geti einstaklingar með mismunandi áherslusvið tekið á fleiri verkefnum en einsleitur hópur. Ragnheiður segir hópinn vera í góðu samstarfi við ýmis fyrirtæki sem koma að framleiðslu bílsins, hjálpa til með flutninga og viðburði sem liðið tekur þátt í, eða styðja liðið með einum eða öðrum hætti. „Án okkar samstarfsmanna væri verkefnið ekki veruleiki, svo þakklætið er óendanlegt.“

Keppast um bílstjórasætið

Ragnheiður segir hópinn á bakvið Team Spark hafa náð mjög vel saman og að liðsheildin hafi aukist með tímanum. „Lykilatriði í svona verkefni er að hópurinn vinni saman sem heild og sýni þannig styrkleika sína,“ segir Ragnheiður en liðsmenn munu þó einnig þurfa að keppa sín á milli á næstunni til að ákveða hver skuli keyra bílinn í keppninni. „Alls verða valdir fimm ökumenn, þar af einn varaökumaður,“ segir Ragnheiður en ökumennirnir munu sæta stífri þjálfun fram að keppninni í sumar.

Háskóli Íslands hefur átt lið í Formula Student frá árinu 2010. Í sumar hafnaði lið háskólans í þriðja sæti í öðrum flokki og segir Ragnheiður Team Spark stefna hátt í keppninni 2014. „Einfaldar lausnir verða hafðar að leiðarljósi en markmið liðsins fyrir keppnina er að bíllinn verði áreiðanlegur og að honum takist að klára allar þrautir og þætti keppninnar. Hönnun bílsins er komin langt og framleiðslan hefst á næstu dögum,“ segir Ragnheiður. „Í keppninni þarf bíllinn fyrst og fremst að komast í gegnum ýmiskonar öryggisprófanir; svo sem bremsupróf, regnpróf og að geta staðið með ökumanni við 60 gráðu halla,“ segir Ragnheiður. „Standist bíllinn allar öryggisprófanir fær hann þátttökurétt í viðburðum keppninnar. Bíllinn er þá dæmdur eftir hröðun, aksturshæfni í svokölluðum áttu-akstri, akstursleikni, úthaldi og nýtni eldsneytis,“ segir Ragnheiður en auk þessara atriða verður hönnun bílsins sem og framleiðslu-, kostnaðar- og viðskiptaáætlanir kynntar.

„Fyrirkomulagið er því í raun eins og lítil Formula 1 keppni og aðdragandi hennar, allt sett í eina viku.“

Hópurinn á bakvið Team Spark
Hópurinn á bakvið Team Spark Morgunblaðið/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina