Fyrst í heimi: 360° velta í stökki

Um helgina fór fram hinn árlegi kappakstursviðburður Baja 1000 í Mexíkó. Þar er keppt í torfærukappakstri á mótorhjólum, fólksbílum, trukkum og sérbyggðum torfærubílum, svo dæmi séu nefnd.

Akstursleiðin er mislöng á milli ára, frá 960 til 1.770 km en auk þess eru hvers kyns uppákomur sem laða að áhorfendur.

Að þessu sinni bar hæst þegar Adrian „villimaður“ Cenni (smelltu hér til að gerast vinur hans á facebook) frumsýndi stökk sem hann hefur verið að vinna að í mörg ár.

Með stökkinu varð Cenni fyrstur manna til að stökkva 360° veltustökk á bíl, og lenda því. Viljandi.

Þrátt fyrir að sérsmíðuðum keppnisbílum, eins og þeim sem Cenni notaði, hætti til að velta í kappakstri er ekki þar með sagt að þeir vilji fljúga í gegnum loftin blá í veltu. Það tók Cenni töluverðar prófanir að finna út hvernig hægt væri að snúa bílnum um langásinn þannig að hann hegðaði sér eftir óskum.

Loks datt hann niður á lausnina. Í stað þess að framkvæma veltuna í einu stökki er í raun um tvö stökk að ræða. Cenni byrjar á því að stökkva af palli og svífur til að byrja með láréttur, en þá lenda vinstri hjólin á öðrum palli og þannig hefst veltan.

Eins og áður segir er þetta í fyrsta sinn sem slíkt stökk er framkvæmt, að minnsta kosti fyrir áhorfendur. Vitni segja að bíllinn hafi líklega náð 6 metra hæð í stökkinu.

Sjáðu stökkið hér fyrir neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina