Eitt af því sem tilheyrir jeppamennsku að vetri til er að keyra yfir frosin vötn. Bæði til að stytta leiðina og eins til að forðast óþarfa brekkur og torfærur. Eins og gefur að skilja er alltaf hættuspil að leggja út á ísinn, og við og við lætur hann undan og jeppinn fær ótímabært ísbað.
Það eru fleiri en Íslendingar sem kannast við þess háttar vesen, því mikil jeppamenning í Rússlandi, þó svo að hún sé með aðeins aðrar áherslur en sú íslenska.
Í meðfylgjandi myndbandi sést björgun jeppa upp úr frosnu stöðuvatni. Það er aðdáunarvert að fylgjast með öruggum handtökum og fumlausum vinnubrögðum, en umfram allt hversu hugvitsamleg aðferð er notuð til að veiða jeppann upp úr vökinni.
Í stað þess að setja annan bíl út á ísinn (sem gæti þá gefið sig aftur) og rykkja og skrykkja (með tilheyrandi skemmdum) er útbúið gangspil sem notað er til að draga bílinn upp á einfaldan sleða og svo áfram upp á ísinn. Bíllinn er því bókstaflega dreginn upp úr vatninu með handafli. Já, eða kannski fótafli.
Íslenskt jeppafólk gæti eflaust gert margt vitlausara en að æfa þessi handtök.