Dýrt rafmagn og skattar fæla Dani frá rafbílum

Betur er búið að hjólamönnum í Danmörku en rafbílum.
Betur er búið að hjólamönnum í Danmörku en rafbílum. mbl.is/Ómar

Samkvæmt niðurstöðum skýrslu sænskra samtaka sem kenna sig við vistvænan akstur eru Danir alveg sér á báti í Skandinavíu að því leyti að þar seljast nánast engir rafbílar til einkanota miðað við hin löndin.

Á þessu eru nokkrar skýringar, að sögn danskra fjölmiðla, en aðallega þó skattalegar. Þótt danska ríkið leggi ekki skráningargjöld á rafbíla er rafmagnið sem þarf til að knýja þá skattlagt meira en í nokkru öðru ríki Evrópu.

Sé hlaðið með heimilistaug kostar kílóvattið af rafmagni 2,20 danskar krónur eða sem svarar um 45 krónum íslenskum. Rafmagn sem selt er einvörðungu til iðnaðarstarfsemi, til dæmis til sérstakra hleðslustaura fyrir rafbíla, ætti að vera fáanlegt á tæplega helmingi lægra verði, en þarfir rekstraraðila hafa komið að miklu leyti í veg fyrir að það hafi orðið að veruleika.

Þessu til viðbótar er greiddur fullur söluskattur af rafbílum en til samanburðar er ekki tekin ein einasta króna í skatt á rafbílum í Noregi. Vegna þess hversu þeir eru og dýrir í innkaupum eiga rafbílar erfitt með að keppa við annars konar bíla í Danmörku. Sérstaklega eru smábílar, míkróbílar, erfiðir rafbílunum því út á þá fást skattaafslættir vegna sparneytni.

Þá hefur mikil áhersla verið lögð á að greiða götu hjólandi fólks í dönsku þéttbýli en hlutfall fólks sem engan fjölskyldubílinn á í stærri dönskum bæjum og borgum er miklu hærra en í sambærilegum bæjum í Noregi og Svíþjóð. Hjólhesturinn eða lestar þjóna samgönguþörfum hás hlutfalls þéttbýlisíbúa í Danmörku. Þá eru bílskúrar ekki á hverju strái og Danir leggja því bílum sínum á götum úti og geta því ekki reitt sig á rafhleðslu.

Loks hafa yfirvöld í Kaupmannahöfn rýrt kjör rafbílaeigenda með því að fella niður ókeypis bílastæði. Því er lítill ávinningur fyrir núverandi eigendur rafbíla að halda öllu lengur í þá. Það hefur reynst þrautin þyngri að losna við rafbíla í Danmörku en flestir hafa þeir ratað til Noregs og selst þangað fyrir lítinn pening.

Niðurstaða höfunda skýrslunnar framangreindu er að fyrst og fremst skorti pólitískan vilja til að auka veg rafbíla í Danmörku. Og þann vilja skorti þrátt fyrir að Kaupmannahöfn hafi verið útnefnd vistvæn höfuðborg Evrópu fyrir árið 2014.

Alls munu um 1.500 rafbílar vera á dönsku ökutækjaskránni. Þriðjungur þeirra, eða 541 eintak, er af míkróbílafjölskyldunni Citroën C-Zero, Mitsubishi i-MiEV og Peugeot iOn. Ennremur 265 eintök af Renault Fluence EV, 221 af Renault Kangoo, 85 Nissan Leaf og 48 Tesla Model S, svo þeir helstu séu nefndir.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: