Skriðdreki festist í drullupolli

Hver hefur ekki lent í þessu? Þú ert úti í móa, að keyra með vinum þínum á risastórum skriðdreka, og stór drullupollur verður á vegi ykkar.

Það er akkúrat það sem gerðist hjá þessum Rússum á heræfingu fyrir stuttu síðan. Eins og við er að búast lét ökumaðurinn vaða í pollinn, en hann reyndist skriðdrekanum ofviða.

Sennilega eru almennt gerðar meiri kröfur til skriðdreka en svo að drullupollur stoppi þá, en eins og sést í myndbandinu hér fyrir neðan gerði ökumaðurinn hetjulega tilraun til að koma flykkinu á þurrt, áður en hann játaði sig sigraðan og fékk annan dreka á svæðið til að draga sig upp (sem er sennilega ekki mjög hentugt í raunverulegum stríðsátökum).

Í raun minnir þetta myndband um margt á myndbönd úr íslenskum jeppaferðum, ef horft er framhjá öllum byssunum.

Hafir þú ætlað að kaupa þinn eigin skriðdreka til að ferðast um hálendið í sumar er líklega rétt að halda sig frá þessari gerð.

mbl.is

Bloggað um fréttina