50 ára saga Mustang á 100 sekúndum

Í næstu viku stendur til að frumsýna nýjan Ford Mustang, í morgunþætti í bandarísku sjónvarpi, nánar tiltekið 5. desember.

Í tilefni þess og að á næsta ári eru liðin 50 ár frá því að framleiðsla Mustang-bílanna hófst, hefur Ford sett saman myndband sem sýnir á stuttum tíma hvernig útlit bílanna hefur breyst í áranna rás.

Þrátt fyrir að Ford reyni að fara með útlit nýja bílsins eins og mannmorð, hafa myndir af honum lekið á netið (samkvæmt Car And Driver eru þetta „næstum örugglega“ réttar myndir).

Þá hefur bílavefurinn Jalopnik fyrir víst að bíllinn verði í boði með úrvali véla, frá 310 hestafla, 2,3 lítra 4 strokka forþjöppuvél og alla leið yfir í 500 hestafla 5,0 lítra V8.

Árið 2016 eða 2017 mun svo bætast við tíu þrepa skipting (við sex þrepa skiptingu sem er í bílnum núna).

Til að höfða betur til Evrópumarkaðarins eru uppi sögusagnir um að bíllinn verði með sjálfstæðri fjöðrun að aftan, sem hefur ekki sést í Mustang áður, ef frá eru taldir SVT Cobra bílar frá 1999 til 2004.

Loks verður svo MyFord Touch notendaviðmótið í boði fyrir Mustang - eitthvað sem takkaóðir ættu að fagna, þó ekki sé víst að gallharðir Mustang-púrítanar séu á sama máli.

mbl.is

Bloggað um fréttina