General Motors (GM) ætlar að hætta að bjóða Chevrolet í Evrópu frá og með árslokum 2015 en leggja því meiri áherslu á Opelmerkið og reisa það til fyrri vegsemda.
Steve Girsky, einn af yfirmönnum GM, segir þetta gert vegna ástands og uppstokkunar á bílamarkaði í Evrópu vegna erfiðrar stöðu efnahagsmála í álfunni.
„Við teljum að þetta verði til hagsbóta fyrir öll bílamerki okkar í Evrópu og víðar um heim og GM mun njóta góðs af sterkari stöðui Opel/Vauxhall,“ segir Girsky. Með því að draga Chevrolet út úr Evrópu muni framfarir hinna merkja GM vaxa hraðar.
Nokkur af helstu módelum GM, svo sem Corvette, verði áfram selt í Evrópu og Cadillac áformar aukinn sóknarþunga þar á næstum þremur árum. Og áfram verður Chevrolet til sölu í Rússlandi þar sem merkið er í fimmta sæti yfir söluhæstu bíla, á eftir Lada, Renault, Kia og Hyundai.
Sala Chevroletbíla hefur tæpast náð sér á strik í Evrópu frá því GM hóf að bjóða þetta merki aftur í álfunni árið 2005. Aðeins um 200.000 eintök hafa selst á ári, en Chevrolet hefur lagt áherslu á smábílasölu í Evrópu, svo sem Aveo og Spark. Fyrirtækið brást við miklum samdrætti í álfunni með því að lækka verð og bjóða stærri og burðugri bíla, en með því lenti það í beinni og harðri samkeppni við dótturfyrirtæki sitt Opel.