Jeppinn tekur við af fjölnotabílnum

Jepplingurinn Vauxhall Mokka er í mikilli sókn á Bretlandseyjum.
Jepplingurinn Vauxhall Mokka er í mikilli sókn á Bretlandseyjum.

Bretar eru í óðaönn að snúa baki við fjölnotabílnum og velja sér jeppa í staðinn. Með þeim afleiðingum að sala fjölnotabíla – sem notið hafa vinsælda þar í landi um árabil – hefur hrunið.

Framleiðslustjóri breska bílframleiðandans Vauxhall, sem er dótturfyrirtæki General Motors, segir við tímaritið Motoring Research, að jepplingar á borð við Vauxhall Mokka höfði jafnt til hefðbundinna kaupenda fjölnotabíla sem fólks sem jafnan hefur keypt sér hlaðbak. Þessi þróun hefur bitnað á sölu fjölnotabíla, segir hann.

„Fjölnotageirinn hefur verið á fallandi fæti frá 2008 og á sama tíma hefur jeppasala aukist hröðum og vaxandi skrefum, aðallega vegna mikillar sölu jepplinga,“ segir hann. Og bætir við að kaup á slíkum bílum – eins og til dæmis Nissan Juke – hafi aukist um 69% frá áramótum miðað við sama tíma í fyrra. Þá hafi sala á smájeppum aukist um 28% á árinu.

Vauxhall hefur notið þessarar þróunar í mikilli söluaukningu á jepplingnum Mokka og hefur ekki haft undan að anna eftirspurn eftir honum. En það hefur aftur á móti verið á kostnað fjölnotabílanna Zafira og Zafira Tourer. Meðan þeir gengu sem best seldust 55.000 eintök á ári í Bretlandi en í ár er búist við að salan verði ekki nema um 20.000 eintök. Sala þessara sjö sæta bíla er því ekki nema um þriðjungur þess sem var er Zafira var upp á sitt besta.

Sérfræðingar segja ekkert benda til þess að hægja muni á jeppasölu. Frekar megi búast við aukningu í þeim geira á næstu tveimur árum með tilkomu nýrra módela. Því sé útlit fyrir að ekkert hægi á jeppasölu fyrr en í fyrsta lagi 2015 eða 2016. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina