Fékk sekt fyrir að henda skýrslunni

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Ekki eru allir sem taka afskiptum lögreglu vel, eða skilja við hana sáttir. Þannig var því t.d. farið með ungan pilt, sem lögreglan stöðvaði í umferðinni í síðustu viku. Sá ók gegn rauðu ljósi á gatnamótum í borginni og því var för hans stöðvuð, segir í frétt lögreglunnar um málið.

Vettvangsskýrsla um málið var fyllt út í lögreglubílnum að piltinum viðstöddum, og fékk hann síðan afritið í hendur og hugðist halda sína leið. Afskiptum lögreglu var hins vegar ekki lokið því um leið og pilturinn fór út úr lögreglubílnum henti hann afritinu í götuna eins og hverju öðru rusli. Hann var því kallaður aftur í lögreglubifreiðina og bent á að með þessari háttsemi hefði hann brotið gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkur.

Við svo búið fór pilturinn loks af vettvangi, en hann á nú bæði yfir höfði sér sekt fyrir að aka gegn rauðu ljósi og einnig fyrir það að fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri, líkt og segir í 18. gr. áðurnefndrar lögreglusamþykktar. Sem betur fer heyra mál sem þessi til undantekninga enda eru samskipti lögreglu og borgaranna í langflestum tilvikum á mjög góðum nótum.

mbl.is

Bloggað um fréttina