Þrengja að bílkaupum í þágu loftsins

Umferðarteppur eru algengar í Kína. Hér er ein slík í …
Umferðarteppur eru algengar í Kína. Hér er ein slík í borginni Xian.

Íbúar kínversku strandborgarinnar Tianjin eiga ekki sjö dagana sæla framundan séu þeir á þeim buxunum að kaupa sér bíl. Til að sporna við loftmengun hefur verið sett þak á nýskráningar bifreiða þar.

Til samsvarandi ráðstafana hefur verið gripið í höfuðborginni Peking og þremur öðrum stærstu borgum Kína, Sjanghæ, Guiyang og Guangzhou.

Með því að draga úr bílaumferð vinnst ekki bara að minnka mengun heldur og ættu viðvarandi umferðarhnútar að minnka. Í Tianjin, sem er eigi fjarri Peking, búa 14 milljónir manna og þar eru 2,36 milljónir bílar á skrá. 

Með ákvörðuninni verða ekki fleiri en 100.000 bílar nýskráðir á ári, að sögn fréttastofunnar Xinhua. Verður 60.000 þeirra úthluta með eins konar lotteríi, þar af verða 10.000 þessara fráteknar fyrir neyslugranna bíla. Afgangurinn, 40.000 bílkaupaleyfi, verða seld með uppboði.

Af þessum 100.000 nýskráningum koma 88% í hlut einstaklinga og afgangurinn til fyrirtækja og stofnana annarra en opinberra, sem fá ekki að vera með.

Í Peking var gripið til takmörkunar af þessu tagi við bílkaupum er nýskráningar voru bundnar við 240.000 á ári. Þar í borg er að finna rúmlega 5,3 milljónir bíla. Eftirspurnin eftir nýskráningarleyfum er það mikil að möguleikinn á að hljóta leyfi er einn á móti 80, að sögn blaðsins China Daily.

Í Guangzhou voru undir lok síðasta árs nýskráningar takmarkaðar við 120.000 á ári. Íbúar eru 16 milljónir og um 2,4 milljónir bíla eru þar skráðir. 

Auk takmörkunar á nýskráningum verður umferð einkabíla takmörkuð í borginni frá og með mars næstkomandi. Á hverjum degi verður um fimmtungur bíla borgarinnar í akstursbanni og ræður skrásetningarnúmerið hvaða vikudag bannað verður að keyra viðkomandi bíl.

Vaxandi millistétt í Kína á sinn þátt í gríðarlegri aukningu á bílasölu í landinu. Fyrstu ellefu mánuði ársins í ár hafa 19,86 milljónir nýrra bíla verið seldar þar í landi. Er þar um að ræða 13,5% aukningu frá sama tímabili í fyrra, 2012.

mbl.is

Bloggað um fréttina