Um árabil hefur slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu gert athugasemdir við merkingar á þeim bílum sem flytja hættuleg efni. Því miður virðist fátt gert til að verða við óskum um að bragarbót verði gerð í þeim málum.
Einnig þyrfti að huga betur að flutningsleiðum hættulegra efna og þeim tíma sem efnin eru flutt á milli staða í umferðinni. Höskuldur Einarsson, fyrrverandi deildarstjóri hjá slökkviliðinu og slökkviliðsmaður, hefur góða innsýn í þennan málaflokk og segir útlitið ekki gott.
Þegar hættuleg efni á borð við ammoníak, klór eða sýru eru flutt til landsins er skipafélögum skylt, samkvæmt alþjóðareglum að skrá efnin vandlega. „Um 90% af þessu koma inn í Reykjavíkurhafnirnar. Þegar efnin eru komin upp á hafnarbakkann virðast þau týnast. Það veit í raun enginn hvert eða hvernig þau fara,“ segir Höskuldur. Hann tekur dæmi um ammoníak, sem er flutt hingað inn í stórum stíl, t.d. 100% ammoníak í þrýstikútum.
„Ef mér dytti nú í hug að flytja þetta inn þá væri það vandlega skráð hjá skipafélaginu. Ef ég kæmi á pallbílnum mínum og næði í efnið á hafnarbakkanum myndu flutningsaðilar koma þessu upp á pallinn hjá mér, ég myndi reyra það niður og aka í gegnum miðbæinn. Ég gæti þess vegna skroppið inn í banka í leiðinni og skilið þetta eftir á pallinum. Þetta er algjörlega óskráð en efnið gæti drepið nokkur hundruð manns ef það færi að leka, til dæmis niðri í miðbæ,“ segir Höskuldur.
Vart þarf að fara nánar út í skaðsemi ammoníaks en það er léttara en andrúmsloft og ef slys yrði myndu nærstaddir anda efninu að sér.
Sérstakir bílar flytja efnin þegar efnin eru komin í ákveðið magn. Þeir eiga að vera merktir svokölluðum ADR-merkjum sem eru appelsínugulir ferningar með hættumerkjunum annars vegar og hins vegar fjögurra stafa tala fyrir neðan sem vísar til merkingar af gátlista Sameinuðu þjóðanna.
„Það er mjög lítið um það að bílar séu vel merktir. Það má nefnilega ekki hlaða saman í bílana. Til dæmis má bíll sem er að fara til Ísafjarðar eða Akureyrar ekki bæði fara með matvöru og hættuleg efni. Þá þykir sumum best að vera ekkert að merkja bílinn,“ segir Höskuldur sem harmar að bílar séu ekki merktir sem skyldi.
Ef slys verður er mjög mikilvægt fyrir þá slökkviliðs- og lögreglumenn sem koma á vettvang að vita hvers kyns er og ef bílar eru rétt merktir eykur það að sjálfsögðu öryggi slökkviliðsmannanna auk þess sem þeir geta þá athafnað sig í samræmi við efnið sem um ræðir.
Allt sem heitir olía og bensín er flutt í bílum í gegnum miðbæinn og má þar einna helst nefna Mýrargötuna sem liggur meðal annars framhjá Hótel Marina og fleiri stöðum þar sem fólk gjarnan fjölmennir.
„Við þessa flutninga hafa svo bæst öll eiturefni sem Olís er með því eiturefnageymsla þeirra er úti á Granda og allt fer þetta í gegnum miðbæinn,“ segir Höskuldur. „Ef eitthvað kemur fyrir bílana þá er stórhætta á ferðum. Ef við tökum hornið á Ægisgötu og Mýrargötu sem dæmi, ef bíll kemur niður Ægisgötuna og keyrir inn í tankbíl með bensíni eða dísilolíu þá er þar ansi mikil hætta. Síðan eru það eiturefnin sem geta lekið út.“
Eiturefnum er ekið um allt land án þess að nokkur í raun viti um það. Sé dæmi tekið um 60-70% sýru sem fer að leka út í jarðveg eða vatn, eins og Þingvallavatn eða Mývatn, yrði skaðinn býsna mikill því gríðarlegt magn af vatni þarf til að blanda út einn lítra af sýru.
„Ef ég ætlaði að blanda lítra af sýru með vatni til að gera hann hlutlausan og ná pH-gildi 6 þyrfti til þess 100.000 lítra. Ef ég ætlaði að ná lítranum upp í pH-gildi 7 þyrfti ég sennilega milljón lítra af vatni,“ útskýrir Höskuldur.
Eitt lítið ker af sýru er þúsund lítrar. Það er algengasta stærðin. Í einum gámi eru á bilinu 18-20 ker og þarf því ekki að velta lengi fyrir sér hversu skelfilegt slys gæti orðið ef eitthvað kæmi fyrir bíl sem flytur sýru. Tankurinn sjálfur er tuttugu tonn og að sögn Höskuldar er eftirlitið með þessum bílum afar lítið ef nokkuð.
Slökkviliðið hefur að sögn Höskuldar haft af þessu nokkrar áhyggjur en útlit er fyrir að lögregla hafi ekki mannskap til að annast eftirlitið.
„Nú eru 40 feta gámar, 12 metra langir, fullir af gasi, fluttir frá Sundahöfn inn í Straumsvík á hvaða tíma sólarhrings sem er í umferðinni. Ef hann lenti í árekstri, gasið færi að streyma út og kviknaði í því þá yrði sprengigígurinn sennilega um fjögurra metra djúpur og sennilega myndi enginn lifa í fimmtíu metra radíus í kring. Með þessu er ekkert eftirlit. Ég hef mætt þessum bíl klukkan fjögur á föstudegi í umferðinni en ef þú flytur sprengiefni, dýnamít, þá þarftu fylgd lögreglu með ákveðið magn af því. Helst bæði fylgd lögreglu og slökkviliðs. En dýnamítið er mun hættuminna en gasið.“
Höskuldur hefur áður sagt fullum fetum að hann hafi meiri áhyggjur af því að hér verði eiturefnaslys heldur en jarðskjálfti eða eldgos sem ógni öryggi íbúa á höfuðborgarsvæðinu.
„Ef ammoníaksleki yrði í frystihúsinu sem verið er að bæta við úti í Örfirisey þá þyrfti að rýma svona 500 metra til kílómetra. Hvað erum við þá að tala um ef vindurinn stæði yfir miðbæinn? Menn horfa stundum ekkert á hvað eru hættuleg efni en við erum engir eftirbátar nágrannalanda okkar í innflutningi á hættulegum efnum. En við erum mjög miklir eftirbátar í því að skoða og fylgja eftir alþjóðareglum um flutning á þessum efnum. Einu bílarnir sem ekki fara í gegnum göngin eru svokallaðir gasbílar, tankbílar sem flytja gas. Það segir það að allir aðrir bílar sem flytja hættuleg efni fara í gegnum göngin,“ segir Höskuldur Einarsson sem vonast til að gerð verði bragarbót í þessum efnum áður en alvarlegt slys verður.
malin@mbl.is