Í niðurstöðum rannsókna á vegum CAST Campaigns and Awareness- Raising Strategies in Traffic Safety sem nýtur stuðnings Evrópusambandsins kemur fram að stórlega er hægt að draga úr umferðarslysum og alvarlegum afleiðingum þeirra með markvissum auglýsinga- og fræðsluherferðum. Í árlegri könnun á vegum Samgöngustofu koma fram vísbendingar um að netherferðin Höldum fókus hafi haft áhrif á viðhorf fólks og hegðun þegar kemur að símanotkun meðan á akstri stendur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Framkvæmdatími nýjustu könnunarinnar var 9. – 18. desember 2013. Um er að ræða netkönnun þar sem úrtakið var 1450 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Fjöldi svarenda var 993 og svarhlutfall því 68,5%.
Færri sem tala í síma án handfrjáls búnaðar
Í nóvember 2012 eða áður en herferðinni var hrundið af stað var fólk spurt hvort það talaði, oft, stundum, sjaldan eða aldrei í farsíma án handfrjáls búnaðar meðan á akstri stendur og kom í ljós að í aldurshópnum 18 – 24 ára sögðust 22% gera það oft. Í könnuninni sem gerð var eftir herferðina eða í desember 2013 mátti sjá að hlutfall þessa hóps var komið niður í 8%.
Markmið aðstandenda herferðarinnar „Höldum fókus“ var að draga úr farsímanotkun ökumanna og ef horft er á heildarniðurstöður án tillits til aldurs má sjá að hlutfall þeirra sem aldrei tala í farsíma við akstur hefur hækkað úr tæpum 19% árið 2012 í tæp 26% árið 2013 sem er framar öllum vonum aðstandenda herferðarinnar.
95 – 98% telja netnotkun við akstur hættulega
Í þessari nýjustu könnun Samgöngustofu var einnig spurt hversu hættulega eða hættulausa viðkomandi teldi netnotkun og sendingu eða móttöku smáskilaboða vera á meðan á akstri stendur. Sögðu u.þ.b. 95 - 98% aðspurðra hana hættulega. Í þessari spurningu voru aðeins ökumenn spurðir og því ljóst að nánast allir ökumenn telja þessa hegðun hættulega. Hinsvegar sagði tæpur fjórðungur ökumanna að hann viðhefði þessa áhættuhegðun meðan á akstri stæði og gerði það þrátt fyrir vitneskjuna um hættuna sem af því stafar.