Eftir að framleiðslu Mazda RX-8 var hætt fór á flug orðrómur um að til stæði að endurvekja forvera hans, RX-7. Ekkert fékkst þó uppgefið hjá Mazda um slík áform.
Nú eru sögurnar komnar aftur á kreik og herma að til standi að nýr RX-7 verði meðal fimm nýrra bíla sem Mazda ætlar að kynna fyrir lok fjárhagsársins 2016.
Ennfremur segir, samkvæmt frétt Carbuzz.com, að verkfræðingar Mazda vilji ólmir ráðast í slíka framleiðslu, en að peningapúkarnir þar á bæ séu ekki eins hrifnir af hugmyndinni.
Ef orðrómurinn reynist sannur, og bíllinn verður framleiddur, er gert ráð fyrir að hann muni kosta um 3,4 milljónir króna í útlandinu, og væntanlega um helmingi meira fyrir litlar eyþjóðir í Atlantshafi.
Ekki virðist standa til að prjóna forþjöppu í bílinn, sem að sjálfsögðu verður búinn Wankel-hjámiðjumótor. Fyrrgreindar sögur herma að mótorinn verði tveggja, eða jafnvel þriggja, snúða og að aflið verði nálægt 250 hestöflum.
Í bíl sem vegur um 1.200 kg ætti það að duga flestum.