Þá er að því komið, söluhæsti bíll Evrópu, Volkswagen Golf, er kominn á götuna í rafútgáfu. Segir VW að hann dragi 190 kílómetra á fullri rafhleðslu. Uppgefinn hámarkshraði er 140 km/klst.
VW e-Golf var frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt í fyrrahaust og er kominn fjöldaframleiddur á götuna í Þýskalandi og kostar þar frá 34.900 evrum eða sem svarar tæplega 5,5 milljónum króna.
E-Golf bætist í rafbílaflota VW sem e-up! og eco-up! tilheyra nú þegar. Hann er nær alveg eins innandyra sem utan og Golf knúinn bensínvél.
Eins og áður segir er dragið allt að 190 km á fullum rafgeymum en það fer þó eftir akstursham og ökustíl bílstjóra. Kostnaður við að keyra 100 kílómetra er sagður 3,28 evrur, eða um 500 krónur.
Rafgolfinn er knúinn 85 kílóvatta rafmótor sem skilar 114 hestöflum og orkuna fær hann frá 24,2 kílóvattstunda litíumjóna rafgeymi. Upptakið, torkið, er sagt 270 newtonmetrar sem gerir það að verkum að hann kemst úr kyrrstöðu í 100 km/klst ferð á 10,4 sekúndum.
Um þrenns konar akstursham er hægt að velja og fjögur stig endurnýtingar hemlunarorkunnar. Þannig getur ökumaður stillt getu bílsins og skilvirkni eftir þörfum. VW e-Golf er framdrifinn.