Hvar er umferðin hættulegust?

Áhersla á umferðaröryggi er mismikil milli þjóða, því er ekki nema eðlilegt að dauðsföll í umferðinni séu líka mismörg, hlutfallslega, á milli þjóða. En hvaða lönd koma verst og best út úr slíkum samanburði? Hvar er hættulegast og öruggast að vera í umferðinni?

Samgöngurannsóknarstofnun Michiganháskóla gaf nýlega út samanburðarskýrslu þar sem dauðsföll í umferðinni eru skoðuð hjá 193 þjóðum, fyrir árið 2008, og þau borin saman við aðrar algengar dánarorsakir.

Meðaltalið 18 af hverjum 100.000

Samkvæmt skýrslunni, sem er unnin upp úr tölum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), er heimsmeðaltalið 18 dauðsföll í umferðinni árið 2008, fyrir hverja 100.000 íbúa.

Lægst var hlutfallið í Maldives-eyjum, þar sem tveir af hverjum 100.000 íbúum létu lífið. Rétt er að hafa í huga að á eyjunum eru aðeins um 70.000 bílar, þó að Maldives-búar séu álíka margir og Íslendingar.

Önnur lönd sem voru mjög neðarlega á listanum voru Tadsjikistan og Malta með þrjú, Fiji, Marshall-eyjar, Ísrael, Tonga, Antígva-Barbúda og Holland með fjögur.

Norður-Evrópa kemur vel út

Ísland var í 169. sæti, af 193, með sex dauðsföll á 100.000 íbúa. Af nágrannaþjóðum má nefna Danmörku í 173. sæti, Noreg í 177. sæti, Bretland í 180. sæti og Svíþjóð í 182. sæti.

Efst á listanum er hins vegar Namibía, með 45 dauðsföll á hverja 100.000 íbúa, eða rúmlega 22 sinnum fleiri en á Maldives-eyjum.

Önnur lönd þar sem umferðin er hættulegust eru meðal annars Taíland (44 dauðsföll), Íran (38) og Súdan og Svasíland (36).

Samkvæmt höfundum skýrslunnar virðist hlutfall dauðsfalla vera einna hæst í löndum Mið-Ameríku, nyrst í Suður-Ameríku, Afríku, Mið-Austurlöndum og sumum Asíulöndum.

Áberandi sé að þau lönd sem eru með fæst dauðsföll séu í Evrópu (einkum norðurhluta álfunnar), Eyjaálfunni og öðrum hlutum Asíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina