Smábílarnir í sviðsljósinu í Genf

Nýr Renault Twingo var einn þeirra bíla sem vöktu mesta …
Nýr Renault Twingo var einn þeirra bíla sem vöktu mesta athygli á bílasýningunni í Genf en hann er með vélina aftur í. mbl.is/afp

Eins og alltaf er eins og ákveðnar gerðir bíla nái hámarki á hverri bílasýningu. Í fyrra voru það rafbílarnir á bílasýningunni í Frankfurt en núna voru það smábílarnir sem stigu fram og áttu sviðið á áttugustu og fjórðu bílasýningunni í Genf.

Stærst þessara frumsýninga var án efa ný kynslóð fransk-japanska tríósins Toyota Aygo, Peugeot 108 og Citroën C1. Frönsku bílarnir þóttu líkir en sá japanski skar sig þó úr með ákveðnara útliti. Bílarnir verða vel útbúnir þegar þeir koma á markað. Má þar nefna sjö tommu upplýsingaskjá með búnaði sem speglar smáforrit beint úr síma notandans, lyklalaust aðgengi og bakkmyndavél svo eitthvað sé nefnt. Bílarnir eru stærri en áður og er skottið til dæmis 196 lítrar og stækkanlegt í 780 lítra í Citroën C1. Vélarnar sem verða í boði eru tvær þriggja strokka frá Toyota. Annars vegar eins lítra 68 hestafla e-VTi vélin sem kemur með fimm gíra beinskiptingu. Einnig er það 82 hestafla 1,2 lítra vélin sem skilar 118 Newtonmetrum af togi, en það dugar henni til að skila bílnum í hundraðið á 11 sekúndum. Sú vél eyðir þó aðeins 4,3 lítrum á hundraðið um leið og hún sleppir aðeins 99 grömmum af CO2 út í andrúmsloftið á kílómetra.

Flottar útgáfur Opel Adam

Þótt búið sé að frumsýna Opel Adam voru tvær nýjar útgáfur af þeim bíl sýndar á bílasýningunni í Genf. Annar var nokkurs konar blendingur sem kallast Adam Rocks og hins vegar tilraunaútgáfa af sporttýpu sem kallast einfaldlega Adam S á þessi stigi. Adam Rocks er 15 mm hærri en hefðbundni bíllinn og ætti því að henta vel íslenskum kaupendum. Felgurnar eru stórar, 17 eða 18 tommu, sem gerir bílinn verklegan ásýndum. Hægt verður að fá hann með rafdrifnum tautoppi. Vélarnar eru glænýjar þriggja strokka Opel-vélar, eins lítra með túrbínu og skilar önnur 90 hestöflum en hin 115 hestöflum. Adam S er einnig með túrbínu en vélin er fjögurra strokka 1,4 lítra vél sem spýtir út 150 hestöflum. Undir bílnum eru alvörubremsur úr OPC með 16 tommu diskum að framan.

Nýr Twingo með vélina aftur í

Annar smábíll vakti talsverða athygli í Genf en það var frumsýning nýs Renault Twingo. Þar sem vélin er aftur í honum er káetan stærri en búast má við í svona litlum bíl, en hann er aðeins 3.590 mm langur. Hann er því 100 mm styttri en fyrirrennarinn en samt er fjarlægðin frá mælaborði að afturhurð 220 mm lengri. Farangursrými er 220 lítrar og þar sem hægt er að fella niður framsæti er hægt að flytja hluti sem eru allt að 2,2 metra langir. Vélarnar í boði eru tvær; eins lítra, þriggja strokka SCe-vélin sem skilar 70 hestöflum og svo TCe-vélin sem er aðeins minni eða 0,9 lítra. Hún er þó öflugri þar sem hún fær túrbínu og skilar því 90 hestöflum og 135 Newtonmetrum af togi.

Mazda Hazumi og Fiat 695 Biposto

Þótt Mazda hafi aðeins frumsýnt tilraunabílinn Hazumi er það ekkert leyndarmál að hann gefur okkur forsmekkinn af því hvernig nýr Mazda2 kemur til með að líta út. Eins og aðrir bílar í Mazda-línunni fær hann KODO-útlitið sem er sportlegt svo ekki sé meira sagt. Vélin í tilraunabílnum var 1,5 lítra Skyactiv-D-dísilvélin en hún mengar aðeins 90 grömmum af CO2 á kílómetra. Annar sportlegur smábíll vakti líka mikla athygli en það var Abarth-útgáfa Fiat 500 sem kallast 695 Biposto. Sá litli skilar sínu svo um munar því að hann er með 190 hestafla vél og er mun léttari en venjulegur Fiat 500 eða aðeins 997 kíló. Það þýðir að hann er aðeins 5,2 kíló á hvert hestafl en það dugar honum til að spýtast úr kyrrstöðu í hundrað kílómetra hraða á aðeins 5,9 sekúndum.

njall@mbl.is

Peugeot 108 í Genf.
Peugeot 108 í Genf. mbl.is/afp
Citroën C1 var meðal annars sýndur með rafdrifnum tautoppi.
Citroën C1 var meðal annars sýndur með rafdrifnum tautoppi. mbl.is/afp
Hugmyndabíllinn Mazda Hazumi gaf gestum á sýningunni nokkra hugmynd um …
Hugmyndabíllinn Mazda Hazumi gaf gestum á sýningunni nokkra hugmynd um það hvernig nýr Mazda2 kemur til með að líta út.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina