Langar þig að fullkomna listina við að bakka í stæði? Eða langar þig kannski bara að geta það á undir 40 mínútum?
Það er ástæðulaust að skammast sín þó að það sé stundum erfitt að bakka í stæði sem er samsíða götu. Ef satt skal segja þarf maður að snúa öllu við í hausnum á sér, nokkrum sinnum, til að framkvæma þetta töfrabragð.
Ef þú ert einn þeirra ökumanna sem vildu frekar ýta bílnum á undan þér upp Bröttubrekku en að bakka í stæði þýðir það ekki að þú sért óvenjuslakur bílstjóri - þvert á móti, það eru margir sem kveljast jafn mikið og þú.
Svo margir reyndar að CNET hefur búið til einfalt kennslumyndband þar sem útskýrt er hvernig leggja má gullfallega í stæði á fljótlegan og einfaldan hátt, með því leggja örfá atriði á minnið.
Í stuttu máli: Finndu nógu stórt stæði - stöðvaðu á réttum stað - bakkaðu að réttum stað - leggðu á til hægri - bakkaðu þar til bíllinn er í 45° horni við stæðið - leggðu á til vinstri - komdu bílnum fyrir - fagnaðu ógurlega!
Hvert skref er útskýrt betur í myndbandinu, auk þess sem sýnt er á skýran hátt hvernig á að bera sig að. Er þetta ekki verðugt æfingarverkefni fyrir helgina?