Þrátt fyrir fögur fyrirheit eru margir Formúlu 1-aðdáendur þeirrar skoðunar að reglubreytingar fyrir núverandi keppnistímabil hafi ekki verið til þess fallnar að auka áhorf á Formúlu 1.
Í stað þess að nýju tímabili fylgdi meiri spenna, eins og til stóð, hefur það farið brösuglega af stað og spennan í fyrstu keppninni í Melbourne var í lágmarki. Þegar við bætist nýtt vélarhljóð, sem margir eru óánægðir með, lítur út fyrir að aðeins hörðustu aðdáendur einstakra ökumanna geti þraukað út keppnistímabilið. Að minnsta kosti ef ekkert breytist.
Þeir sem gefast upp á spennuleysinu í Formúlu 1 gætu því þurft að leita sér að annarri akstursíþrótt til að horfa á. Liggur þá beinast við að skoða þá íþrótt sem nýtur mestra vinsælda í Bandaríkjunum - NASCAR-kappakstur.
Af áfengi ertu kominn, að áfengi skaltu aftur verða
NASCAR á rætur að rekja til ársins 1948, þegar bifvélavirkinn William France eldri stofnaði keppnisdeild fyrir stock car-kappakstur (upphaflega notað um fjöldaframleidda fólksbíla sem kepptu, en nú um kappakstursbíla sem eru byggðir á fjöldaframleiddum bílum).
Áður hafði ekkert regluverk verið til um slíkar keppnir, og því mikið um svik og brotin loforð á milli ökumanna og styrktaraðila. France vildi sjá íþróttina vaxa og dafna og sá að það myndi ekki gerast án regluverksins.
Stock car-kappakstur á svo aftur rætur að rekja til suðurríkja Bandaríkjanna fyrir seinni heimsstyrjöldina. Þá var heimabrugguðu áfengi dreift til kaupenda á litlum en hraðskreiðum bílum, sem þurftu að geta stungið lögregluna af.
Til að gera bílana hraðskreiðari voru gerðar ýmsar breytingar á þeim, sem urðu kveikjan að íþróttinni eins og hún er í dag.
Það er því kannski vel við hæfi að í augum margra Bandaríkjamanna er bjórdrykkja ómissandi þáttur af því að horfa á NASCAR-kappakstur.
Tveir ólíkir heimar
Munurinn á Formúlu 1 og Nascar er eins og munurinn á fótbolta og amerískum fótbolta. Stærsti munurinn, sem er ef til vill ekki augljós við fyrstu sýn, er hinn gríðarlegi munur á tækni sem keppnisliðin nýta. Til að grípa til annars samanburðar má segja að Formúlu 1-keppni sé eins og geimskot, margra milljarða aðgerð með hátæknistjórnstöð og bíla sem á hverju tímabili skarta því besta sem til er í bíltækniheiminum. NASCAR væri þá meira eins og hestakerruhlaup, með örlitlu skáldaleyfi.
Munurinn sem allir sjá hins vegar er að bílarnir í NASCAR eru með yfirbyggingu sem nær yfir ökumann og hjól, og að brautirnar eru ekki beinlínis tæknilegar, þar sem þær eru svo gott sem sporöskjulaga. Því er stundum sagt, bæði í gríni og alvöru, að það eina sem NASCAR-bílstjórar geri sé að stíga bensínið í botn og snúa stýrinu til vinstri.
En fleira kemur til. Í NASCAR er meira um árekstra og pústra á milli bílstjóra og framúrtökur eru margfalt fleiri. Það endar ekki alltaf vel og dæmi eru um að áhorfendur slasist eða láti lífið þegar brak úr bílunum kastast í þá.
Til að kafa nánar ofan í muninn á þessum tveimur akstursíþróttum, og auðvelda þér að ákveða hvort þú viljir skipta úr Formúlunni yfir í NASCAR, eru hér myndbönd sem fjalla sérstaklega um samanburð á þeim. Tekið skal fram að síðasta myndbandið er í boði Onion-„fréttastofunnar“ og ætti ekki að taka alvarlega.