Skepnan, eins og bifreið Bandaríkjaforseta er almennt kölluð, er ekki til eilífðarbrúks þótt brynvarin sé til að standast kúlnahríð. Þegar er hafið kapphlaup milli bílaframleiðenda um smíði nýs forsetabíls.
Skepnan verður tekin úr umferð og lagt að loknum embættistíma Baracks Obama. Og enda þótt enn séu eftir næstum þrjú ár af kjörtímabili Obama þykir ekki ráð nema í tíma sé tekið að huga að arftaka hennar.
Hefur heimavarnaráðuneytið þegar hafið eftirgrennslan hjá bandarískum bílsmiðum og leitað tilboða í nýjan forsetabíl, „Límúsínu eitt“. Búist er við að niðurstaða um hverjum verði falin smíðin liggi fyrir í ágúst næstkomandi.
Obama fékk embættisbíl sinn afhentan splunkunýjan er hann tók við völdum í ársbyrjun 2009. Að útliti undanskildu er hann eiginlega í engu líkur stórum bandarískum hefðarbíl.
Þungi hans er gríðarlegur, eða 4,5 tonn en það skýrist helst af því að byrðingurinn er úr 12,5 sentimetra hertu stáli. Er hann því fremur eins og brynvarinn dreki en að auki eru rúðurnar skotheldar. Á hann – og þeir sem um borð eru – að geta staðið af sér árás þar sem minni háttar flugskeytum, handsprengjum og gasvopnum er beitt.
Og arftakinn verður að lágmarki jafn öruggur og bíll Obama, ef ekki öruggari. „Í hönnun og smíði forsetabíls koma við sögu mun fleiri öryggisatriði en í öllum öðrum smíðisbílum okkar samanlagt. Það tekur mörg ár að þróa þau,“ sagði einn af yfirmönnum hönnunardeildar bandaríska bílsmiðsins General Motors, Ed Welburn, við fréttavefinn detroitnews.com.
Bíll Baracks Obama er byggður upp af lengdum undirvagni Cadillac DTS, General Motors er með öðrum orðum framleiðandi núverandi embættisbifreiðar Bandaríkjaforsesta. Það þykir mikil upphefð að vera falin smíðin og spurningin er hver hreppir hnossið næst. Verður það aftur GM, Ford, Chrysler eða kannski bara Tesla?
agas@mbl.is