Fyrsti fjöldaframleiddi fólksbíllinn í þáverandi Tékkóslóvakíu er hálfrar aldar gamall um þessar mundir. Raðsmíði hans hófst vorið 1964 og af rúmlega 443.000 framleiddum eintökum var rúmur helmingur fluttur út – meðal annars til Íslands.
Hér er um að ræða hinn goðsagnakennda Skoda 1000 MB en nýstárlegum aðferðum var beitt við smíði hans, meðal annars hvernig vélarblokkin var steypt úr áli. Nú er bíllinn vinsæll forngripur, ekki síst tvennra dyra MBX-útgáfan.
Fyrsta raðsmíðiseintakið af Skoda 1000 MB kom á götuna 21. mars 1964 og var bíllinn arftaki þáverandi Skoda Octavia. Hann var fyrsti bíllinn með drif á afturhjólum frá tékkneska bílsmiðnum og eiginlega bautasteinn í 119 ára sögu fyrirtækisins. Hann var og óvenjulegur sakir þess að vélin var aftur í bílnum.
Þegar frægðarsól hans skein sem skærast var fernra dyra útgáfan einhver besta bifreiðin í sínum vélarstærðarflokki hvað varðaði þægindi, afkastagetu og tækni. Markaði Skoda 1000 MB einskonar byltingu í bílsmíði Skoda vorið 1964. Bíllinn var framleiddur á tímabilinu frá apríl 1964 til ágúst 1969.
Sú dirfska Skoda, eins elsta bílaframleiðanda heims, að skipta rækilega um kúrs með nýja bílnum átti eftir að gefa vel af sér. Skoda 1000 MB rauk út eins og heitar lummur í Tékkóslóvakíu og erlendis. Var hann seldur víða um heim, meðal annars til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Styrktist Skoda mjög í sessi sem evrópskur bílaframleiðandi.
Í nafni bílsins stendur MB fyrir Mlada Boleslav, bæinn þar sem var að finna höfuðstöðvar Skoda. Og talan 1000 stendur fyrir rúmtak vélarinnar. 1000 MB var fáanlegur í mörgum útgáfum, meðal annars með auknu vélarafli og í glæsiútgáfunni 1000 MBX sem safnarar sækjast mjög eftir nú til dags.
Til framleiðslu bílsins reisti Skoda alveg nýja bílsmiðju í Mlada Boleslav og var hún búin allri nýjustu tækni til bílsmíði. Þar varð Skoda fyrstur evrópskra bílsmiða til að steypa vélarblokkir úr áli. Fjögurra þrepa gírkassinn var einnig steyptur með sama hætti. Hin vatnskælda fjögurra strokka vél skilaði 37 hestöflum til afturhjólanna, en 43 eftir að hún var uppfærð að afli 1968. Hún var óvenjulega sparneytin fyrir sinn tíma, brúkaði 7-8 lítra á hundraðið. Topphraði bílsins var 120 km/klst.
Áður en raðsmíði Skoda MB 1000 hófst fór fram ítarlegur þróunarakstur til að undirbyggja góða endingu. Alls voru 50 eintök smíðuð í því skyni og lögðu þau alls 1,6 milljónir kílómetra að baki við reynsluaksturinn árið 1962. Meðal annars var bíllinn prófaður í hörkufrosti í Rússlandi og gríðarlegum lofthita annars staðar. Þá var færni hans á malarvegum könnuð og þróuð á fjallvegum í Kákasusfjöllum. agas@mbl.is