Spegill og myndavél vinna saman

Eins og flestir vita er næstum ómögulegt að sjá út um afturrúðuna á flestum nýjum bílum. Baksýnisspeglar eru því aðallega notaðir til að horfa á farþegana í aftursætinu.

En nú hefur Nissan fundið ráð til að gefa bílstjórum aftur færi á að sjá hvað er að gerast fyrir aftan bíla þeirra.

Á bílasýningunni í New York, sem hefst eftir nokkra daga, mun japanski bílaframleiðandinn frumsýna nýja baksýnisspeglatækni sem er einfaldlega kölluð „Smart“. Hún virkar þannig að bak við glerið í speglinum er tölvuskjár sem tengdur er við myndavél í afturrúðunni. Með því að hreyfa einn rofa getur bílstjórinn skipt yfir í mynd úr myndavélinni, og séð skýrt og greinilega allt fyrir aftan bílinn.

Með því að hreyfa rofann aftur slokknar á skjánum og spegillinn verður bara spegill. Svo bílstjórinn geti haldið áfram að njósna um farþegana.

Einhver gæti haldið að einfaldara væri bara að hætta að hanna bíla þannig að afturrúðan væri gagnslaus, en það er ekki alveg svo einfalt. Með aukinni öryggisvitund bílaframleiðenda verða til dæmis höfuðpúðar og þakpóstar stærri og fyrirferðarmeiri. Fylgifiskur þess er að afturrúðan smækkar og útsýnið um hana versnar, sérstaklega á litlum bílum og líklega er ástandið verst á smájeppum.

mbl.is

Bloggað um fréttina