Kostar 380 milljónir, hljómar eins og gömul drusla

Lykan HyperSport verður aðeins framleiddur í sjö eintökum.
Lykan HyperSport verður aðeins framleiddur í sjö eintökum.

Líbanski ofursportbíllinn Lykan Hypersport er sérstæður fyrir margra hluta sakir. Til dæmis eru LED-framljósin umlukin demöntum og mælaborðið byggir á heilmyndatækni. 

Bíllinn var fyrst kynntur snemma á síðasta ári, en virðist nú kominn á framleiðslustig. Lykan Hypersport er fyrsti ofursportbíllinn sem framleiddur er í arabaríki en aðeins verða framleidd sjö eintök.

Þó að útlit bílsins sé vissulega eftirtektarvert, og sameinar línur og stef úr mörgum áttum, skortir það einhverja fágun eða smáatriði til að hæfa bíl sem mun kosta um 3,4 milljónir bandaríkjadala, eða um 380 millljónir króna, á gengi dagsins í dag.

Og það sem verra er, eins og heyra má á meðfylgjandi myndbandi, skortir töluvert upp á að hljóðið úr bílnum sé kauphvetjandi.

Mótorinn er sex strokka, tveggja forþjöppu boxer-mótor, sem getur rakið ættir sínar til Porsche, með einhverjum áfangastöðum á leiðinni í bílinn. Hann á að skila 750 hestöflum, en ef marka má þetta myndband eru hestarnir allir hálfslappir og rámir.

Til samanburðar má benda á sýnishorn af vélarhljóði úr bílum á borð við Audi R8 (542 hö) og Koenigsegg One:1 (1.360 hö).

Kannski má segja að sá samanburður sé ósanngjarn, þar sem Audi-inn er 10 strokka og Koenigsegginn er 8 strokka, en sá síðarnefndi er þó sambærilegur við Lykan Hypersport að sumu leiti.

Til dæmis verða aðeins framleidd sex eintök af honum, og verðmiðinn stendur í um 270 milljónum. Munurinn er kannski sá að Koenigsegg bílar eru þekktir fyrir fullkomnunaráráttu skapara síns.

Ef til vill hefur eitthvað dottið af vélinni á leiðinni frá Porsche, því að í þeirra eigin bílum hljómar hún mjög vel.

Líklegra er þó að útblásturskerfið sé með öllu misheppnað, það er að segja ef það er í raun og veru 750 hestafla mótor í bílnum. Þeir sem hafa gaman af forþjöppuhljóði fá þó sitthvað fyrir sinn snúð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka