Porsche ákært vegna dauða Walker

Paul Walker

Ekkja mannsins sem var undir stýri þegar Paul Walker lést í bílslysi í nóvember hefur nú höfðað mál gegn framleiðanda bílsins. Ekkjan heldur því fram að hönnunargallar hafi orðið til þess að eiginmaður hennar, Roger W. Rodas og Walker létust í slysinu.  

Samkvæmt ekkju Rodas, Kristine M. Rodas, keyrði eiginmaður hennar á tæplega 90 km hraða á klukkustund þegar slysið átti sér stað, en samkvæmt lögregluyfirvöldum var það löglegur hraði á þeim stað er slysið gerðist. Rodas keyrði 2005 árgerð af Porsche Carrera GT sem getur farið upp í rúmlega 320 km hraða á klukkustund. Samkvæmt ákæru eiginkonunnar vantaði bílinn tilheyrandi öryggisbúnað sem hefði getað bjargað lífum mannanna.  

Samkvæmt lögfræðingi ekkjunnar sóttust þau eftir áliti sérfræðinga sem skoðuðu bílinn og áreksturinn. Er þeirra niðurstaða heldur ólík niðurstöðu yfirvalda sem gáfu út yfirlýsingu þess efnis að Rodas hafi verið á 150 km hraða á klukkustund þegar slysið átti sér stað. Komst sú rannsókn einnig að því að það hafi verið þessi mikli hraði, en ekki gallar á bílnum, sem olli slysinu. Þeirri rannsókn var stjórnað af verkfræðingum frá Porsche sem skoðuðu brak bílsins. 

Samkvæmt ákærunni var Rodas þjálfaður í kappakstri, en hann og Walker áttu saman kappakstursliðið Always Evolving. 

Tökur á kvikmynd Walkers, „Fast & Furious 7“, voru hálfnaðar þegar andlát hans bar að höndum. Tveir bræður leikarans vinna nú að því að aðstoða framleiðendur myndarinnar við að klára að taka upp atriði Walkers. Útgáfu kvikmyndarinnar hefur nú verið frestað, en áætlað er að hún verði frumsýnd í apríl 2015. 

Á slysstað
Á slysstað © AP
mbl.is