Fjölbreytt úrval fyrir stærri fjölskyldur

Chevrolet Orlando.
Chevrolet Orlando.

Ef fjórða barnið bætist við hjá fólki veit ég að margir hugsa með skelfingu til þess hlutskiptis að verða bílstjóri „strumpastrætós“ í sömu andrá og tilhlökkunin yfir nýju lífi gerir vart við sig.

Ég myndi gjarnan vilja útrýma þessu orði, „strumpastrætó“, úr íslensku slangri. Það er kjánalegt og gerir lítið úr þeim prýðilega tækjakosti sem í boði er í sjö manna bílum á markaðnum. Það er ekkert sem minnir á strætisvagna í því úrvali sem fólki stendur til boða í dag, þó svo að eitt og annað hafi gert það hér áður fyrr.

Ótrúlegt úrval

Sjö manna bílar eru mun fleiri en mig óraði fyrir og víddin í úrvalinu alveg einstök. Vert er að geta þess strax í upphafi að fleiri vilja kaupa slíka bíla en stórar fjölskyldur. Sumir leigubílstjórar hafa fest kaup á slíkum bílum og hafa víða slegið í gegn fyrir vikið.

Alls eru til tuttugu og fimm gerðir af sjö manna bílum hjá umboðunum hér á landi. Í haust verða þær tuttugu og sex.

Hægt væri að flokka þá í nokkra flokka: Ódýrustu bílarnir, rúmbestu, sjö manna jeppar, sjö manna fólksbílar, vistvænir, grænir og að lokum væri það flokkur lúxusbíla í sjö manna útfærslum. Sumir bílanna geta hæglega komist í fleiri en einn flokk sem er í góðu lagi en hér verður byrjað á þeim ódýrustu. Myndir eru af þeim bílum sem voru prófaðir sérstaklega fyrir þessa umfjöllun. Þar sem við átti var öryggisprófun EuroNCAP höfð með.

Ódýrustu bílarnir

Sá bíll sem er langsamlega ódýrastur af þessum fjölda sjö manna bíla er Chevrolet Orlando. Beinskiptur bensínbíll kostar 3.890.000 kr. og er afskaplega þýður og góður í akstri. Eitt handtak þarf til að losa miðjubekkinn og þannig geta tveir krakkar skottast aftur í. Ég segi krakkar því þarna er ekki beinlínis pláss fyrir skankalanga nema einna helst í styttri ferðir. Bíllinn er sparneytinn og eyðir um 7 lítrum á hverja 100 km í blönduðum akstri. Þessi bíll kom mér verulega á óvart, bæði hversu vel búinn hann er og hve lágt verðið er.

Þeir eru fleiri sem kosta innan við fjórar milljónir og næstan ber að nefna VW Caddy sem fæst nú í sjö manna útfærslu og kostar frá 3.970.000 kr.

Næst kemur vænn hópur bíla sem kosta rétt rúmar fjórar milljónir króna. Ford Grand C-Max kostar 4.050.000 kr. og Mazda 5 frá 4.090.000 kr. Engir bílar fá Brimborg fengust til reynsluaksturs og því sennilegt að þeir séu ekki til hjá umboðinu en rétt er að hafa þá með eins og þá bíla sem væntanlegir eru í haust.

Toyota Verso kostar 4.095.000 kr. og er bæði rúmgóður og skemmtilegur í akstri. Eyðslutölurnar voru svipaðar og hjá stærri fólksbílum frá Toyota, eða í kringum 7 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri. Rýmið á „aftasta bekk“ er gott og vel má bjóða fullorðnum þar sæti. Renault Grand Scenic er á 4.290.000 kr. og fleiri eintök af þessum vinsæla bíl eru væntanleg til landsins í næsta mánuði.

Citroën Grand C4 Picasso kostar 4.390.000 og á svipuðu verði er Kia Carens sem kostar frá 4.890.000 kr. Carens er einn þeirra bíla sem komu verulega á óvart í prófunum. Hann er einstaklega vel búinn og óhætt að segja að peningunum sé vel varið ef maður kann að meta ríkulegan staðalbúnað. Sjö ára ábyrgð fylgir þessum bíl eins og öðrum Kia.

Fólksbílaflokkur

Auk þeirra sem nefndir voru í ódýrasta flokki bíla má bæta við öðrum sjö manna fólksbílum. Ford S-Max kostar frá 5.450.000 kr. og Ford Galaxy frá 5.650.000 kr. Skemmtileg viðbót við þennan flokk er Mercedes Benz V-Class sem er stór fjölskyldubíll. Hann kemur á markað í sumar en ekki er ljóst hvað hann kemur til með að kosta. Toyota Prius + er prýðilegur sjö manna bíll sem án nokkurs efa er sá sparneytnasti af þeim sjö manna bílum sem prófaðir voru. Hann er tvinnbíll og má með góðu móti aka honum innanbæjar og halda eyðslunni undir 5 lítrum á hverja hundrað kílómetra. Öll sætin eru á brautum og auðvelt að færa þau fram og aftur að vild. Hann kostar frá 5.990.000 kr. Tesla Model-S mengar náttúrlega ekki neitt enda rafmagnsbíll. Í grunninn kostar bíllinn 9.990.000 kr. og hægt er að bæta tveimur sætum aftur í hann fyrir 400.000 kr. og er hann þá orðinn sjö manna. Aftasta sætaröðin snýr raunar aftur og er hugsuð fyrir litla krakka, helst ekki mikið þyngri en 50 kg.

Rúmbestu bílarnir

Í flokki rúmbestu sjö manna bílanna skara þrír fram úr svo um munar. Það eru Land Cruiser 200, Land Rover Discovery og Mercedes-Benz GL-Class. Land Cruiser hefur af þeim þremur vinninginn enda með eindæmum rúmgóður og er hugsað fyrir hverju smáatriði hvort heldur er fyrir farþega frammí, í miðjunni eða aftast. Hægt er að fá 200-bílinn ódýrastan á 19.930.000 kr. og er þar um bensínbíl að ræða. Dísilbíllinn var prófaður og hann mengar minna en bensínbíllinn auk þess sem eyðslutölurnar eru lægri. Discovery var líka mjög skemmtilegur og sömu sögu er að segja um GL-Class. Rýmið er með því besta sem gerist í þessum flokki bíla en auðvitað eru þetta stórir jeppar og því ekki hægt að bera þá beint saman við fólksbílana.

Jeppaflokkurinn

Auk þeirra þriggja sem nefndir voru hér að ofan eru fleiri jeppar inni í sjö manna flotanum. Byrjum á þeim ódýrustu. Nýr sjö manna Nissan X-Trail er væntanlegur í haust og lítur út fyrir að verðið á honum verði nokkuð gott, eða 5.500.000 kr. Chevrolet Captiva kostar frá 6.290.000 kr., Mitsubishi Outlander er til sjö manna og kostar 6.490.000 kr. og því næst mætti nefna Kia Sorento sem fæst í sjö manna útfærslu frá 7.480.000 kr.

Mitsubishi Pajero kostar frá 9.650.000 kr og eru öftustu sætin tvö toguð upp úr gólfinu og þannig vel falin þegar ekki er verið að nota þau. Dálítið maus fannst mér að veiða þau upp en eflaust venst það og verður lítið mál þegar maður er kominn í æfingu.

Tveir jeppar frá Ford fást í sjö manna útfærslu og reyndar rúmar sá stærri átta manns. Hér er annars vegar um Ford Explorer að ræða en hann kostar 9.850.000 kr. og hins vegar Ford Expedition sem kostar 12.990.000 kr. Toyota Land Cruiser 150 er fáanlegur með sjö sætum í öllum útgáfum og kostar þannig búinn frá 10.120.000 kr. BMW X5 má sérpanta með sjö sætum og kostar frá 10.930.000 kr. Audi Q7 kostar 14.910.000 kr. í sjö manna útfærslu og Land Rover Sport má sérpanta með auka sætaröð og kostar þá 15.450.000 kr.

Ljóst er af þessari úttekt að úrvalið er gott og hægt að fá nýja bíla í öllum flokkum og á ýmsu verði. Athyglisverðast þykir mér, þegar allt kemur til alls, að sá ódýrasti, Chevrolet Orlando, kosti 3.890.000 kr. sem verður að teljast gott verð og einnig kemur á óvart hversu margir bílanna kosta á bilinu fjórar til fimm milljónir króna.

malin@mbl.is

Land Rover Discovery
Land Rover Discovery
Kia Carens.
Kia Carens. mbl.is/Kia
Toyota Prius +
Toyota Prius +
Toyota Land Cruiser 200.
Toyota Land Cruiser 200.
Mitsubishi Pajero.
Mitsubishi Pajero.
Mercedes-Benz GL-Class.
Mercedes-Benz GL-Class. mbl.is/Golli
Tesla Model S.
Tesla Model S. mbl.is/Malín Brand
Toyota Verso.
Toyota Verso. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina